16 stiga frost í nótt

Frost var mikið inn til landsins í nótt.
Frost var mikið inn til landsins í nótt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hæg norðlæg átt verður í dag en norðan og norðvestan kaldi austast fram á kvöld, kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

„Þurrt og bjart veður, en dálítil él norðaustantil á landinu þar til síðdegis.
Kalt í veðri, frost víða á bilinu 0 til 8 stig en sumstaðar kaldara inn til landsins og þar sem kaldur vindur andar af hálendinu, t.d. mældist mesta frost í nótt á Hellu, rúmlega 16 stig,“ segir í hugleiðingunum. 

Lægð nálgast

Þá segir að í kvöld nálgist lægð úr suðvestri með vaxandi suðaustanátt og minnkandi frosti. „Gengur í hvassa suðaustanátt í nótt og slær líklega í storm á norðanverðu Snæfellsnesi. Snjókoma í fyrstu og skiptir fljótt yfir í rigningu á láglendi, en hægari vindur og úrkomulítið um norðaustanvert landið.


Flestir sofa versta veðrið af sér því í fyrramálið snýst í hægari suðvestanátt með skúrum, en það fer kólnandi með éljum seinni partinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert