Fimm ára stúlka festist í rennibraut

Rennibrautin sem um ræðir. Slökkviliðsmenn voru 20 mínútur að brjóta …
Rennibrautin sem um ræðir. Slökkviliðsmenn voru 20 mínútur að brjóta snjóinn þegar búið var að bjarga stúlkunni. Ljósmynd/Aðsend

Illa hefði getað farið síðdegis í gær þegar fimm ára gömul stúlka festist í rennibraut sem búið var að fylla af snjó við Korpuskóla í Grafarvogi.

Móðir stúlkunnar reyndi án árangurs að fá hana lausa og það var ekki fyrr en afi hennar kom á svæðið sem það tókst. Slökkviliðið mætti á vettvang stuttu síðar og braut snjóinn sem stíflað hafði rennibrautina.

Herdís Storgaard, verkefnisstjóri hjá slysavarðstofu barna, segir að ef stúlkan hafi rennt sér með höfuðið á undan eins og börn hafa tilhneigingu til þá hafi hún hreinlega getað kafnað í snjónum. 

„Það sem er kannski svona óhugnanlegast er að ef barnið hefði rennt sér á maganum eins og krakkar gera, þá hefði hún lent með höfuðið á undan sér og hún hefði getað bara kafnað, þetta var alveg svoleiðis atvik,“ segir Herdís við mbl.is.

Stúlkan slasaðist sem betur fer ekki, segir Herdís, sem hafði rætt við móður stúlkunnar aðeins örfáaum mínútum áður en hún ræddi við mbl.is. Herdís segir að mæðgurnar séu í áfalli. 

Móðir stúlkunnar teiknaði inn á myndina til þess að sýna …
Móðir stúlkunnar teiknaði inn á myndina til þess að sýna hve hátt snjórinn náði. Ljósmynd/Aðsend

Snjórinn getur verið varasamur

Þótt gaman geti verið gaman að leika sér í snjónum verði þó að muna að hann er ekki hættulaus, eins og Herdís vill benda á. 

Hún nefnir í því samhengi að vel þekkist að börn leiki sér í snjósköflum sem myndast þegar götur eða bílastæði eru rudd á veturna. Gjarnan eru grafin göng í gegnum skaflinn sem veki mikla kátínu þar til göngin hrynja með hryllilegum afleiðingum. 

Herdís biðlar því til foreldra og forráðamanna barna að fylgjast vel með börnum sínum í snjónum þar sem hættur geta víða leynst. Ekki bætir þá úr skák að nú sé sá árstími þegar myrkur er hvað mest síðdegis og á kvöldin.

Herdís Storgaard.
Herdís Storgaard. Ljósmynd/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Rennibrautin sem um ræðir í þessu tilfelli var lokuð og aðkoman að henni snúin og torfær. Herdís segir að það sé algengt þar sem ríkjandi hugmyndafræði leiktækjaframleiðanda sé sú að skapa sem bestar aðstæður fyrir líkamsrækt barna. Þannig eru rennibrautir og „kastalar“ eins og sá sem stúlkan festist í eins konar þrautabrautir. 

„Það er erfitt að koma að þessu, þetta er svona þrautakastali, það er ekki bara stigi til að komast að rennibrautinni,“ segir Herdís um það þegar móðir stúlkunnar reyndi að bjarga dóttur sinni. 

Herdís segir enn fremur að hún muni tilkynna þetta atvik til leiktækjaframleiðanda svo að fólk geti glöggvað sig á því sem þarna gerðist. Vonandi með þeim afleiðingum að eitthvað verði gert til þess að fyrirbyggja að svona slys verði aftur. 

„Þetta hefur ekkert með tækið að gera þannig séð. Það sem ég mun þó gera núna, af því ég er að vinna í kringum þetta staðlaða umhverfi fyrir stofnun í Brussel, er að ég mun tilkynna þetta. Þannig að þetta fer á alla leiktækjaframleiðendur, bara til þess að menn átti sig á þessu.“

Uppfært

Móðir stúlkunnar hafði samband við mbl.is og áréttaði að það hafi verið afi stúlkunnar sem náði að koma henni til bjargar. Áður sagði að hann hafi reynt það án árangurs og að slökkviliðinu hafi síðan tekist það. Slökkvilið kom þó á vettvang og braut snjóinn í rennibrautinni, sem var að sögn móðurinnar heilmikið verk. Beðist er velvirðingar á rangfærslunni, sem nú hefur verið leiðrétt. 

mbl.is