Glænýjum forseta varð á í messunni og tók hlé

Afsakið hlé!
Afsakið hlé! Skjáskot/Alþingi

Birgir Ármannsson, nýkjörinn forseti þingsins, hafði ekki verið nema nokkrar mínútur í embætti þegar hann gerði mistök í starfi. 

Þau voru þó ansi smávægileg þar sem hann dró úr vitlausum kassa við sætaúthlutun þingsins. Því þurfti að byrja upp á nýtt við að úthluta þingmönnum þingsæti sín í sal Alþingis. 

Þetta tilkynnti Birgir og uppskar hlátur frá öðrum þingmönnum. 

Mistökin leiðréttust þó ekki þar með og þurfti forsetinn að gera fimm mínútna hlé á fundinum til þess að stemma af vitlausa útdráttinn og þann rétta. 

Birgir, sem verið hefur í sviðsljósinu undanfarnar vikur vegna starfa sinna sem formaður kjörbréfanefndar þingsins, sýnir það og sannar að greinilega getur öllum orðið á í messunni þegar kemur að talningu og útdeilingu.

Óhætt er þó að fullyrða að mistök forseta þingsins um sætaúthlutun þingmanna muni ekki draga jafnmikinn dilk á eftir sér og klúðrið í Norðvesturkjördæmi eftir kosningarnar í september.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert