Kallar ríkisstjórnina „höfuðborgarstjórnina“

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sagði í ræðu sinni á þingi í kvöld að hann ætli sjálfur að kalla nýju ríkisstjórnina höfuðborgarstjórnina. Reykjavíkurlista-nafnið hafi verið frátekið.

Sagði hann það nýlundu að allir ráðherrar séu annaðhvort búsettir á suðvesturhorninu eða séu fulltrúar höfuðborgarkjördæmanna þriggja, en að nafngiftin sé fyrst og fremst tilkomin vegna ofuráherslu flokkanna á að innleiða samgöngustefnu Samfylkingarinnar í Reykjavík með Borgarlínu og tengdum verkefnum.

Furðar sig á „skattstyrkjum“

„Ég vil leyfa mér að gagnrýna orð hæstvirts forsætisráðherra í stefnuræðu sinni hér á undan, þar sem ráðherrann sagði skattkerfið fjármagna samneysluna. Í þessum orðum felst grundvallarmisskilningur vinstri manna á því hvernig verðmæti verða til,“ sagði Bergþór.

Það væru fyrirtækin og fólkið í landinu sem fjármögnuðu samneysluna, án þeirra fjármuna, sem teknir eru af fyrirtækjum og heimilum landsins til að standa undir samneyslunni, verði ekki um neina samneyslu að ræða.

„Á meðan ekki er skilningur á því, þá er ólíklegt að við sem þjóð losnum úr þeirri stöðu í bráð að bera eina hæstu skattbyrði allra þjóða OECD.“

Kvaðst hann furða sig á hugtakinu „skattstyrkir“ í fjárlögum ríkisstjórnarinnar og segir að þar skíni í gegn sú nýja sýn nýrrar en áframhaldandi ríkisstjórnar að ríkissjóður eigi þetta allt saman, en af lítillæti sínu og hjartahlýju skilji stjórnvöld eitthvað eftir í vasa fólksins sem vinni fyrir því.

„Þetta er sama nálgun og þegar stjórnvöld skattlögðu borgarana en skiluðu síðan hverjum og einum heilum 5 þúsund krónum og kölluðu það gjöf. Ferðagjöf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert