Staðfesta að um heimatilbúna sprengju var að ræða

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðfestir að hluturinn sem fannst í gær í ruslagámi við Mánatún hafi verið heimatilbúin sprengja. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni til fjölmiðla, en lögreglan hefur í gær og dag varist allra frétta af málinu fyrir utan stutta tilkynningu í gær og svo nú aftur í dag.

Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð til og tryggði vettvang og eyddi sprengjunni.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að sendiherrabústaður Bandaríkjanna væri í næsta nágrenni við ruslagáminn, en lögreglan segir að ekkert hafi komið fram við rannsókn málsins sem bendi til þess að málið tengist sendiráði erlends ríkis. 

Þá segir jafnframt að tveir af mönnunum þremur sem handteknir voru í tengslum við málið hafi hafið afplánun vegna fyrri refsidóma en þriðja manninum hefur verið sleppt.

Lögreglan tekur svo fram í tilkynningunni að ekki verði frekari upplýsingar veittar að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert