„Glapræði“ að skerða framlög

Framlag ríkisins til sjálfstæðu leikhúsanna nemur um 94 milljónum króna …
Framlag ríkisins til sjálfstæðu leikhúsanna nemur um 94 milljónum króna á næsta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er mikil óánægja með þetta og við munum sannarlega gera athugasemdir,“ segir Orri Huginn Ágústsson, formaður stjórnar Bandalags sjálfstæðra leikhúsa, í samtali við Morgunblaðið.

Framlag ríkisins til sjálfstæðu leikhúsanna nemur um 94 milljónum króna á næsta ári samkvæmt nýbirtu fjárlagafrumvarpi. Það er um 30% niðurskurður frá fjármálaáætlun og engan veginn viðunandi að mati Orra.

„Ég vona að fólk sjái í hendi sér að þetta er glapræði,“ segir Orri sem kveðst telja að ástæðu niðurskurðarins megi rekja til þess að í fyrra hafi framlag verið hækkað vegna áhrifa kórónuveirunnar. Staðreyndin sé hins vegar sú að áhrifa hennar gæti enn hjá sjálfstæðu leikhúsunum. „Þau eru enn í mjög slæmri stöðu og þó nokkrir hópar sitja enn óbættir,“ segir hann og vísar til þess að fjölmargir sviðslistamenn hafi ekki átt rétt á úrræðum stjórnvalda vegna samkomutakmarkana.

„Þetta svíður líka af því að við erum búin að vera í mörg ár að berjast fyrir því að þessir verkefnastyrkir verði auknir og það gert myndarlega. Framlagið núna er lægra en það var fyrir Covid svo við erum komin fimm ár aftur í tímann. Staðreyndin er eftir sem áður sú að sjálfstætt sviðslistafólk stendur fyrir yfir helmingi af þeim uppfærslum sem færðar eru á svið á hverju ári en fær ekki nema um 8% af þeim opinberu fjármunum sem veittir eru til sviðslista.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert