Með svarta beltið í læknisfræði

Gígja, fyrir miðju við doktorsvörn sína við Haukeland-sjúkrahúsið í Bergen …
Gígja, fyrir miðju við doktorsvörn sína við Haukeland-sjúkrahúsið í Bergen í nóvember. Dr. Tómas Guðbjartsson tók þar að sér hlutverk andmælanda við góðan orðstír. Ljósmynd/Aðsend

„Ég byrjaði að safna upplýsingum um sjúklinga sem voru skornir upp við nýrnakrabbameini hér á Haukeland, við tókum blóðprufur úr þessum sjúklingum áður en þeir voru skornir upp. Þegar ég var búin að skrá í nokkur ár ákváðum við að greina þessar blóðprufur og reyna að finna út hvort það væru einhver efni í blóðinu, sem gæfu til kynna hvaða sjúklingar ættu á hættu að deyja og hverjir ættu á hættu að fá meinvörp,“ segir Gígja Guðbrandsdóttir, þvagfæraskurðlæknir við Háskólann í Bergen í Noregi og auk þess kunnur júdómeistari á árum áður, í samtali við Morgunblaðið, en Gígja hefur nýlokið við að verja doktorsritgerð sína um cytókín í nýrnafrumukrabbameini, Cytokines in Renal Cell Carcinoma eins og ritgerðin heitir þar sem henni hlotnaðist ekki ómerkari aðalandmælandi en dr. Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirskurðlæknir á skurðdeild Landspítalans.

„Svo fylgdum við þessum sjúklingum eftir, þetta er liður í því að finna svokallaða biomarkers fyrir nýrnakrabbamein,“ segir doktor Gígja, áminnt um að útskýra harðsnúin fræði sín á mannamáli. Hún lauk prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands, skyldubundnu kandídatsári auk þess að starfa í tvö ár á skurðdeild Landspítalans. „Ég ætlaði mér að verða skurðlæknir og þá verður maður að fara í nám til útlanda. Noregur varð fyrir valinu og ég sótti bæði um stöður í Ósló og hér í Bergen og fékk stöðuna í Bergen.

Kynntist Tómasi á Landspítalanum

Ég flutti þá hingað út árið 2009 með dóttur minni og þáverandi kærastanum mínum og barnsföður og hélt áfram í skurðlæknanáminu. Svo tók ég þessa doktorsgráðu meðfram því, svo á þessum tíma sem ég hef verið hér hef ég lokið almennum skurðlækningum, þvagfæraskurðlækningum og doktorsgráðu,“ segir Gígja með svo afslappaðri mælsku að allar þessar gráður hljóma eins og bréfaskólapróf í fluguhnýtingum, þótt hún sé sérfræðingur í skurðfræðum við eitt virtasta háskólasjúkrahús Noregs og með aðra gráðu af svörtu belti í júdó, 2. dan.

Gígja ásamt sambýlismanni sínum, dr. Bjørn Nedrebø, yfirlækni á meltingarfæraskurðdeild …
Gígja ásamt sambýlismanni sínum, dr. Bjørn Nedrebø, yfirlækni á meltingarfæraskurðdeild Haukeland. Þau kynntist í vinnunni, nema hvað? Ljósmynd/Aðsend

Talið berst að téðum Tómasi, andmælanda Gígju við doktorsvörnina og einum annálaðasta lækni Íslands þessa dagana. Örlögin spunnu vef sinn svo að faðir Tómasar, Guðbjartur Kristófersson, kenndi hvorum tveggju, Gígju og blaðamanninum, er hér rekur úr henni garnirnar, efnafræði við Menntaskólann í Reykjavík á öldinni sem leið. Hvernig kom þessi doktorsvörn þá til?

„Ég kynntist Tómasi þegar hann var nýkominn heim úr námi og ég var í skurðlæknanáminu á Íslandi. Okkar leiðir lágu saman á vöktum á Landspítalanum og við fengum tilfelli sem okkur langaði að skrifa um, grein sem var birt í skandinavíska þvagfæraskurðlæknablaðinu árið 2008 eða 2009,“ segir Gígja frá og nær með sínum rómaða sannfæringarkrafti að hljóma eins og velflestir lesendur Morgunblaðsins sofi með málgagn skandinavískra þvagfæraskurðlækna á náttborðinu, enda sönn fræðikona.

„Hann stóð sig rosalega vel“

„Tómas er svo rannsóknasinnaður að við ákváðum að skrifa þessa grein saman,“ segir Gígja af samstarfi þeirra. „Svo skrifaði hann meðmælabréf með mér þegar ég var að sækja um stöðu hérna úti og hann hefur líka haft samband við mig þegar einhverjir kandídatar hafa áhuga á Noregi, upp á að fá upplýsingar um hvernig námið er byggt upp hér. Svo hef ég reyndar bara einu sinni hitt hann eftir að ég flutti út, en hann er með doktorsgráðu sem snýr að nýrnakrabbameini og er prófessor með reynslu af að vera andmælandi svo ég hugsaði með mér að gaman væri að loka hringnum hjá okkur með því að hann væri andmælandi minn þegar ég kláraði.“

Grímuklædd kona með blóð í glasi og oddhvassa nál, bara …
Grímuklædd kona með blóð í glasi og oddhvassa nál, bara venjulegur vinnudagur á Haukeland. Ljósmynd/Aðsend

„Og hvernig gekk það?“ spyr blaðamaður. „Hann stóð sig rosalega vel,“ svarar Gígja án þess að hugsa sig um í sekúndu. „Ég var nú aðallega að spyrja hvernig þú hefðir staðið þig,“ játar blaðamaður og brestur á með hlátrasköllum á báðum endum símtalsins. „Ég held að ég hafi staðið mig ágætlega líka,“ segir Gígja, „ég fæ að vita þemað tveimur vikum áður og held svo 45 mínútna framsögu um það. Þá eru 15 mínútur af spurningum, svo klukkutíma pása og svo fékk ég hálftíma til að kynna þessar fjórar rannsóknir sem ég hef gert og svo svaraði ég spurningum í tvo tíma og kortér minnir mig,“ segir Gígja af doktorsvörn sem óvíst er að venjulegt fólk hefði lifað af miðað við lýsinguna.

Þrátt fyrir að blaðamaður sitji uppi í rúmi með kaffibolla sundlar hann við lýsinguna af vörn þessari og reynir að breyta um umræðuefni. Finnst Gígju ekki rigna fullmikið í Bergen, hinu forna vígi Hansakaupmanna?

Anna Soffía Víkingsdóttir, í bláum galla, eða gi eins og …
Anna Soffía Víkingsdóttir, í bláum galla, eða gi eins og það heitir, vinstra megin, etur kappi við Gígju á Íslandsmótinu í júdó fyrir rúmum áratug. Morgunblaðið/hag

„Jú, hérna rignir oft marga daga í röð en sjaldnast allan daginn, en hér blæs ekki eins mikið og á Íslandi svo rigningin kemur beint niður. Ég man þegar maður var að hjóla í og úr skóla, fyrst Hagaskóla og svo MR, þá var maður alltaf með vindinn í fangið, sama hvort þú varst að fara í skólann eða heim,“ segir læknirinn og hlær dátt, en Gígja sleit barnsskónum á Seilugranda.

Norðmenn lítið í júdóinu

Nú býr hún hins vegar í úthverfinu Åsane í Bergen, maður er svona kortér að keyra niður í bæ. Ég bý í alveg yndislegu hverfi, þetta er svona raðhúsahverfi, ósköp notalegt,“ segir Gígja, en sambýlismaður hennar er dr. Bjørn Nedrebø, yfirlæknir meltingarfæraskurðdeildar Haukeland-sjúkrahússins. „Við kynntumst í vinnunni,“ segir Gígja og hlær dillandi hlátri.

Sem fyrr segir er læknirinn júdómeistari, hún er uppalin í Júdófélagi Reykjavíkur undir handleiðslu Bjarna Friðrikssonar og enn átta blaðamaður og viðmælandi sig á sameiginlegum pólum í lífinu þar sem hinn fyrrnefndi æfði júdó hjá Ármanni á sínum tíma og man glöggt eftir Gígju sem þá átti nokkur ár í að verða skurðlæknir og þvagfærasérfræðingur. Þannig er tíminn, hann líður.

Gígja fann sig ekki í júdóinu í Noregi en er …
Gígja fann sig ekki í júdóinu í Noregi en er mikil útivistarkona, stundar hlaup, hjólreiðar og skíði. Ljósmynd/Aðsend

Gígja fann sig ekki í júdóinu í Noregi enda halda nágrannar okkar og frændur lítið upp á íþróttina. „Ég hleyp og hjóla hérna, stunda gönguskíði og fer upp á fjöll með vinkonum og svo er ég þjálfari fyrir bæði börnin mín í handbolta. Ég á vinkonur hér bæði gegnum hverfið og börnin mín og svo er líka íslenskur hópur hér sem flutti út á sama tíma svo ég er ansi vinamörg hér,“ segir læknirinn hressilega og lætur vel af Íslendingasamfélaginu í Bergen. „Maður er samt alltaf flinkari að umgangast Íslendingana í byrjun þegar maður hefur ekki eignast eins mikið net og eins marga vini,“ játar skurðlæknirinn og blaðamaður getur ekki annað en tekið undir, minnugur fyrstu áranna í Noregi, í Stavanger kortéri eftir bankahrun.

Af ættmennum

Sjaldnast fyrirgefa íslenskir lesendur að fá ekki sína ættfræði svo við nálgumst endalok spjallsins á þeim vettvangi, faðir Gígju er Guðbrandur Gíslason, bókmenntafræðingur og reyndar fyrrverandi skrifari á Morgunblaðinu, og móðir hennar Steinunn Bjarnadóttir, starfsmaður Íslandsbanka. „Ég er skilnaðarbarn svo ég á hálfbróður og fjórar stjúpsystur,“ útskýrir doktor Gígja Guðbrandsdóttir að lokum í líflegu spalli við Morgunblaðið, nýbakaður doktor í nýrnakrabbameinsfræðum, júdómeistari og hinn skemmtnasti viðmælandi. Svoleiðis fólk tínir maður ekki upp af götunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »