Óskandi að fleiri þiggi grunnbólusetningu

Ferðbúinn Bólusetningabíllinn fer á milli fyrirtækja og fólki býðst að …
Ferðbúinn Bólusetningabíllinn fer á milli fyrirtækja og fólki býðst að láta bólusetja sig á vinnustað sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðtökur við bólusetningabílnum hafa verið afar góðar og heimsóknir gengið ágætlega þó að óskandi væri að fleiri myndu þiggja grunnbólusetningu, segir Sig­ríður Jóhanna Sigurðar­dóttir, verk­efna­stjóri bólu­setninga hjá heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins.

Sérstakt bólusetningaátak fór af stað á fimmtudaginn í síðustu viku þar sem að sérútbúinn sjúkrabíll, eða bólusetningabíll, flakkar á milli fyrirtækja og stofnana og býður starfsfólki sem ekki hafa fengið bólusetningu að þiggja eina slíka. Með í för er hjúkrunarfræðingur, sjúkraflutningamaður og stundum túlkur, ef þörf er á.

„Við erum á staðnum og bjóðum bólusetningu til þeirra er koma til okkar,“ segir Sigríður Jóhanna í samtali við mbl.is.

Um 30 - 50% sem þiggja bólusetningu 

Aðspurð segir Sigríður Jóhanna enga tölfræði til staðar um hversu margir hafa þegið bólusetningu í þessu átaki. Hún segir þó fjölda heimsókna telja á bilinu 10 til 20 og þá séu um það bil 30-50% starfsmanna sem þiggja bólusetningu af einhverju tagi hverju sinni. Er þá fyrst og fremst um fyrstu bólusetningu að ræða þó svo að einhverjir hafi einnig þegið örvunarskammt.

Ekki von á breyttu fyrirkomulagi

Upphaflega var greint frá því að strætó yrði notaður við þetta bólusetningaátak þar sem honum yrði mögulega lagt á fjölförnum stöðum eins og fyrir utan verslunarkjarna og gæti fólk gengið þar inn og fengið bólusetningu. Líkt og gefur að skilja hefur sú hugmynd þó tekið töluverðum breytingum.

Spurð hvort að breytingar á núverandi fyrirkomulagi séu í kortunum, og að upprunalega hugmyndin fái að líta dagsins ljós, kveðst Sigríður ekki eiga von á því.

„Eins og staðan er núna hef ég ekki séð þörfina fyrir það, þetta fyrirkomulag er bara mjög gott.“

Sigríður Jóhanna vill þó áfram hvetja fyrirtæki og stofnanir sem telja þörf á heimsókn frá bólusetningabílnum að setja sig í samband við heilsugæsluna og bóka tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert