„Þetta hefði auðveldlega getað verið barn“

Marta Eiríksdóttir varð fyrir því óhappi að stíga ofan í …
Marta Eiríksdóttir varð fyrir því óhappi að stíga ofan í stálhólk sem stóð opinn í alfaraleið í Helgafellslandi. Ljósmynd/Aðsend

Marta Eiríksdóttir, íbúi í Helgafellslandi í Mosfellsbæ, varð fyrir því óhappi á þriðjudaginn síðastliðinn að stíga ofan í stálhólk sem stóð opinn í alfaraleið í hverfinu og hlaut við það meiðsl á fæti.

„Ég get ekki ímyndað mér ef barn hefði stigið þarna ofan í og jafnvel fótbrotnað,“ segir Marta í samtali við mbl.is.

Engin leið að sjá hólkinn sem var þakinn snjó

Þennan morguninn hafði Marta verið á göngu heim til sín eftir að hafa fylgt dóttur sinni í leikskólann þegar vörubíll, sem lagt hafði verið á miðri götunni, hefti för hennar.

„Ég ákvað því að stytta mér leið yfir hringtorgið sem er á götunni og þegar ég geng yfir það stíg ég ofan í stálhólk sem liggur ofan í jörðinni á miðju hringtorginu. Hólkurinn var þakinn snjó svo það var engin leið fyrir mig að sjá hann.“

Í fyrstu taldi Marta að hún hafi fótbrotnað enda hafi fallinu fylgt töluverður sársauki.

„Ég skrapaði hressilega framan af sköflungnum og er ennþá vel marin og bólgin. Ég lét því kíkja á mig á heilsugæslunni en þeim fannst ekki ástæða til að taka mynd af þessu.“

Marta er vel marin og bólgin á fæti eftir fallið.
Marta er vel marin og bólgin á fæti eftir fallið. Ljósmynd/Aðsend

Bæjaryfirvöld voru fljót að bregðast við

Að sögn Mörtu hafi lítil fótspor verið á hringtorginu þar sem hún steig ofan í hólkinn.

„Þetta hefði auðveldlega getað verið barn á leið í skólann svo ég skrifaði skrifaði strax ábendingu á ábendingavef Mosfellsbæjar og talaði líka við manneskju á skrifstofu bæjarins.“

Bærinn hefur verið fljótur að bregðast við ábendingu Mörtu þar sem búið var að setja lok ofan á hólkinn þegar hún fylgdi dóttur sinni í leikskólann í gærmorgun.

Samkvæmt upplýsingum Bjarna Ásgeirssonar, deildarstjóra þjónustudeildar Mosfellsbæjar átti umræddur stálhólkur að halda uppi jólatré sem bæjaryfirvöld hugðust setja upp á miðju hringtorginu.

„Það var lok ofan á hólknum en það hefur verið tekið af án okkar vitundar. Við lokuðum honum strax aftur svo það er búið að laga þetta,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert