Tveir til viðbótar smitaðir af Ómíkron

Tvö smit hafa greinst af Ómíkron afbrigði kórónuveirunnar í dag í kjölfar þess að fyrsta smitið greindist í gær. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, staðfestir þetta við Rúv sem greindi fyrst frá smitunum.

Sá sem greindist smitaður af afbrigðinu nú í gær er karlmaður á áttræðisaldri. Hann liggur inni á landspítala en hafði áður verið á heilbrigðisstofnun utan höfuðborgarsvæðisins vegna veikinda tengdum veirunni.

Maðurinn er fullbólusettur auk þess sem hann fékk nýlega örvunarskammt. Uppruni smits mannsins er enn óljóst en þó er talið að smitin tvö sem greindust í dag tengist smiti gærdagsins.

Bíðum og sjáum

Enn er beðið fullnægjandi upplýsinga um Ómíkrón afbrigði veirunnar. Til dæmis er ekki vitað hver uppruni afbrigðisins er, eða raunar hvernig það nákvæmlega varð til. Ekki er heldur ljóst hvort afbrigðið sé meira smitandi en önnur afbrigði en þó eru vísbendingar þess efnis.

Þá telja vísindamenn ekki heldur ljóst hvort veiran valdi meiri eða minni einkennum samanborið við önnur afbrigði. Þó virðast flestir sérfræðingar á því að Ómíkron verði ráðandi afbrigði ansi víða innan nokkurra mánaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert