„Tvöfalt heilbrigðiskerfi orðið staðreynd“

mbl.is/Hari

Tæplega 4.000 manns hafa sett nafn sitt við undirskriftalista þar sem þess er krafist að ákvæði um tveggja ára starfsreynslu talmeinafræðinga sé fjarlægt úr rammasamningi. Í áskorun sem listanum fylgir er skorað á ráðherra fjármála, heilbrigðis- og barnamála „að taka höndum saman og finna lausn í þessum viðkvæma og mikilvæga máli.“

Fé­lag tal­meina­fræðinga á Íslandi hefur lengi vel krafist þess að ákvæðið verði fjarlægt úr samningnum. Bið eftir þjónustu talmeinafræðings er nú um tveggja ára löng en Sjúkratryggingar Íslands taka ekki þátt í að greiða þjónustu sem talmeinafræðingar með minni reynslu en tvö ár veita. 

„Hátt í þúsund börn eru á þjónustu talmeinafræðinga. Á sama tíma er í rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands við talmeinafræðinga ákvæði um að talmeinafræðingar þurfi að hafa starfað í tvö ár eftir útskrift til þess að skjólstæðingar þeirra fái niðurgreidda þjónustu. Til að stytta biðlista og koma í veg fyrir tvöfalt kerfi, gerum við þá sanngjörnu kröfu að þetta ákvæði verði fjarlægt úr rammasamningnum,“ segir í áskoruninni. 

Geta ekki unnið á löngum biðlistum

„Vegna íþyngjandi tveggja ára starfsreynsluákvæðis í rammasamningi talmeinafræðinga við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa biðlistar í talþjálfun lengst fram úr hófi en að jafnaði er um að ræða tveggja ára bið í talþjálfun fyrir börn um allt land, stundum meira. Vegna þessa er tvöfalt heilbrigðiskerfi orðið staðreynd þar sem foreldrar greiða talmeinaþjónustu fullu verði án aðkomu SÍ, þrátt fyrir að barn þeirra sé sjúkratryggt að fullu samkvæmt lögum.“

Í áskoruninni er það gagnrýnt að nýútskrifaðir talmeinafræðingar geti ekki unnið á löngum biðlistum þar sem þjónusta þeirra er ekki niðurgreidd. 

„Börnin sem þurfa nauðsynlega á aðstoð þeirra að halda bíða. Ráðherrar vita af stöðunni en aðhafast eingöngu í orði en ekki á borði. Nú er mál að linni. Við skorum á ráðherra fjármála, heilbrigðis- og barnamála að taka höndum saman og finna lausn í þessum viðkvæma og mikilvæga máli. NÚNA.“

Hér er hægt að skrifa undir listann.

mbl.is