Unglingspiltar gengu berserksgang í Hagkaupum

Átök brutust út í gær í verslun Hagkaupa.
Átök brutust út í gær í verslun Hagkaupa. mbl.is/Hjörtur

Kalla þurfti til aðstoðar lögreglu um sjöleytið í gærkvöldi í Hagkaupum í Spöng þegar hópur unglingsdrengja gekk þar berserksgang. Þetta staðfesti Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa.

Ráðist var á starfsfólk búðarinnar með þeim afleiðingum að starfsmaður nefbrotnaði. Að sögn Sigurðar voru áverkarnir ekki hættulegir en þó hafi það leitað aðhlynningar eftir á. 

Viðskiptavinir stigu inn í

Áður en til átakanna kom höfðu drengirnir verið til vandræða í búðinni sem hafði leitt til þess að hluti þeirra var tekinn á tal. Þetta lagðist ekki vel í hópinn sem var „hátt stemmdur“ að sögn Sigurðar og brutust í kjölfarið út átök sem færðust fram í búð.

Kom að lokum til þess að viðskiptavinir þurftu að stíga inn í en heimildir mbl.is herma að þrír búðargestir hafi í sameiningu snúið drengina niður á meðan beðið var eftir aðstoð lögreglu.

Spurður hvort að öryggisverðir hafi ekki verið á vakt svarar Sigurður að þeir starfi þar á misjöfnum tímum. Tekur hann þá fram að mjög sérstakt þyki að slíkur atburður eigi sér stað klukkan rúmlega sjö á miðvikudagskvöldi.

Málið á borði lögreglu og barnaverndar

Málið er nú komið á borð lögreglu og barnaverndar þar sem um er að ræða ólögráða einstaklinga.

Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, hefur einnig staðfest að mál þess eðlis sé á borði lögreglu en hún vildi þó ekki veita frekari upplýsingar um það að svo stöddu.

mbl.is