Engar útfærslur að finna í stjórnarsáttmálanum

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/Aðsend

Engar útfærslur er að finna í stjórnarsáttmálanum um hvernig eigi að bregðast við húsnæðisverði þó svo að kveðið sé á um mikilvægi þess að mæta þeim sem búa við háan húsnæðiskostnað. 

Þetta kemur fram í vikulegum pistli Drífu Snædal forseta Alþýðusambands Íslands.

Hún segir það skjóta skökku við að ný ríkisstjórn leggi áherslu á að vinnumarkaðurinn axli ábyrgð í komandi kjarasamningum á meðan að litið sé fram hjá því sem raunverulega skipti máli, sem er að taka á dýrtíð og húsnæðisverði.

Engin merki um að stórátaks sé þörf

Drífa bætir við að hvorki stjórnarsáttmálinn né fjárlagafrumvarpið beri merki þess að stórátaks sé þörf á húsnæðismarkaði.

Í stjórnarsáttmálanum er engar útfærslur að finna. Í hverju á hinn aukni stuðningur að felast? Hvernig á að tryggja framboð ódýrs húsnæðis? Á að efla vaxtabótakerfið, hækka húsaleigubætur eða fara aðrar leiðir til að draga úr húsnæðiskostnaði? Á að koma lögum á útleigu íbúðahúsnæðis til ferðamanna og mun leiguþak eða leigubremsa loksins rata í lög,“ spyr Drífa í pistlinum.

Hún segir framtíðarsýn skorta í þessum málum en hægt og rólega mun fólk ekki hafa efni á að búa í nálægð við vinnustaði sína. Ungt fólk sem ekki hefur kost á að vera heima fram á fertugsaldur neyðist til að búa við óviðunandi aðstæður. 

Fleiri spurningar en svör

Hefur því stjórnarsáttmálinn skilið eftir fleiri spurningar en svör og ekki bætti fjárlagafrumvarpið um betur.

„Eftir stendur gríðarleg áskorun í lífskjörum fólks og það er alvarleg forherðing að varpa ábyrgðinni á launafólk sem horfir nú fram á hækkandi húsnæðisverð og hækkandi verð á matvörum og öðrum nauðsynjum. Það er heldur ekki í boði að bíða aðgerða til að gefa loforð í tengslum við kjarasamninga næsta haust. Þá verður það of seint og lítill trúverðugleiki að ætla enn og aftur að endurnýta gömul loforð sem aldrei hafa verið efnd.“

Segir Drífa að lokum að ný ríkisstjórn þurfi að sýna það ekki síðar en strax að hún ætli sér að setja afkomu fólks og lífsgæði í forgang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert