Halli í Ueno fær hvatningarverðlaun ÖBÍ

Haraldur Þorleifsson, forsprakki Römpum upp Reykjavík, og Ásmundur Einar Daðason, …
Haraldur Þorleifsson, forsprakki Römpum upp Reykjavík, og Ásmundur Einar Daðason, skóla- og barnamálaráðherra. Eggert Jóhannesson

Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, hlaut í dag hvatningarverðlaun ÖBÍ 2021, fyrir verkefnið Römpum upp Reykjavík sem hann stefndur fyrir.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti verðlaunin rétt í þessu en faðir Haralds, Þorleifur Gunnlaugsson, veitti þeim viðtöku fyrir hönd Halla, eins og hann er alla jafnan kallaður. 

Upphaflegt markmið verkefnisins var að byggja 100 rampa í Reykjavík á einu ári. Það markmið náðist á 8 mánuðum, og nú hefur hann sett markið enn hærra, eitt þúsund rampar um allt land.

„Gott aðgengi er okkur öllum mikilvægt. Það er mörgum hulið hve það er mikilvægt. Þá er hollt að setja sig í spor Haraldar, og sjá fyrir sér allar tröppurnar sem hindra aðgang svo margra að samfélaginu,“ segir í tilkynningu frá ÖBÍ. 

Markmið Hvatningarverðlauna ÖBÍ er að veita viðurkenningu þeim sem hafa með verkum sínum stuðlað að einu samfélagi fyrir alla, sem endurspegla nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks.

Í tilkynningunni segir að Römpum upp Reykjavík falli fullkomlega að tilgangi verðlaunanna.

Þorleifur Gunnlaugsson, faðir Haralds veitti verðlaununum viðtöku, Guðni Th. Jóhannesson, …
Þorleifur Gunnlaugsson, faðir Haralds veitti verðlaununum viðtöku, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti þau. Ljósmynd/ÖBÍ
mbl.is