Íshellan sigið hátt í 30 metra

Rennslið í Gígjukvísl var komið upp í 1.600 rúmmetra á sekúndu þegar vatnamælingamenn tóku stöðuna milli tíu og tólf í morgun, að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Þá hefur íshellan yfir Grímsvötnum sigið hátt í 30 metra. 

Venjulegt rennsli í ánni á þessum árstíma er um 100 rúmmetrar á sekúndu og er því um sextánfalt meiri kraft að ræða, að sögn Sigurlaugar Hjaltadóttur náttúruvársérfræðings.

Hámarksrennsli hefur þó enn ekki komið fram en búast má við að það gerist seinnipartinn á morgun eða sunnudag. Gæti það náð allt að 4.000 rúmmetrum á sekúndu. Ekki er talið líklegt að hlaupið muni hafa skaðleg áhrif á mannvirki en það hefur ekki gerst frá því árið 1996.

Aukinn órói á Grímsfjalli

Íshellan í Grímsvötnum hefur nú sigið um rúmlega 27 metra sem er 10 metrum meira en í gær. Þá bar á auknum óróa í Grímsfjalli milli klukkan 12 og tvö í dag, sem er næsta skjálftastöð. Segir Sigurlaug líklegt að skjálftarnir komi fram þar sem vatnið rennur undan jöklinum.

Samkvæmt upplýsingum vedur.is hefur þó ekki verið um mjög kraftmikla skjálfta að ræða það sem af er liðið degi.

Þá standa líkur á eldgosi vegna þrýstiléttis í kjölfar jökulhlaupsins, óbreyttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert