Jónmundur fær dóm fyrir skattabrot

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Jónmundur Guðmarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, hefur verið dæmdur fyrir „meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum,“ eins og segir í dómi Héraðsdóms Reykjaness. Tildrög málsins eru þau að Jónmundur var eigandi samlagsfélagsins Polygon og voru skattframtöl félagsins fyrir árin 2014 til 2016 tekin til endurskoðunar vegna tilhæfulauss kostnaðar sem færður hefði verið í reikninga félagsins.

Í ákæru héraðssaksóknara sagði að rekstrargjöld hefðu verið oftalin sem nam tæpum 95 milljónum króna. Jónmundur krafðist sýknu og til vara vægustu refsingar. Vísaði hann til þess að hann hefði haft frumkvæði að því að láta færa bókhald félagsins að nýju og leggja fram endurgerða ársreikninga og skattframtöl.

Niðurstaða dómsins var sú „að við ákvörðun refsingar skuli leggja til grundvallar að offramtalin rekstrargjöld Polygon slf. á tímabili ákæru hafi numið 61.471.819 krónum.“ Þá er rakið að ákærða hafi ekki áður verið gerð refsing en að hann sé sakfelldur fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum. Honum til málsbóta „horfir að hann hefur að langstærstum hluta játað brot sín og þá sýndi hann fulla samvinnu við rannsókn málsins.“ Refsing var ákveðin sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi sem falli niður að tveimur árum liðnum. Þá skuli ákærði greiða 66,5 milljónir króna í sekt í ríkissjóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina