Saga Cyclothon er öll

WOW Cyclothon árið 2019.
WOW Cyclothon árið 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stærsta hjólreiðakeppni á Íslandi, Cyclothon, verður ekki haldin á ný á næsta ári eins og síðustu 10 ár og af tilkynningu frá skipuleggjendum keppninnar má skilja að hún verði aldrei haldin framar.

„Við sem stöndum að Cyclothoninu tilkynnum með trega að keppnin hefur runnið sitt skeið og verður ekki haldin á ný á næsta ári.  Það sem hófst sem keppni milli nokkurra vina árið 2012 og varð að stærstu hjólreiðakeppni landsins árið 2017 þegar yfir 1300 manns tóku þátt hefur átt undir högg að sækja á tímum heimsfaraldurs og því tökum við þessa erfiðu ákvörðun,“ segir í tilkynningunni. 

Á annað hundrað milljóna til góðgerðamála

Cyclothon-hjólreiðakeppnin gekk áður undir nafninu WOW-cyclothon, þegar hið fallna flugfélag styrkti keppnina, og síðar Síminn-cyclothon. Fyrirtæki víðs vegar um landið sendu gjarnan lið í keppnina og söfnuðu áheitum um leið til styrktar góðgerðamálum. 

„Við erum stoltir af svo mörgu. Meira en 5.000 einstaklingar hafa tekið þátt í ævintýrinu, hjólaðir hafa verið nær milljón kílómetrar og við höfum safnað á annað hundruð milljóna króna til góðra verka í samfélaginu. Það allra besta er að engin alvarlega slys hafa orðið í keppninni þó að vissulega hafi einhverjir, þar með talið við sjálfir, flogið á hausinn, brákast eða skrámast,“ segir enn fremur í áðurnefndir tilkynningu.
 

mbl.is