Ungir karlmenn eiga helst ekki að fá Moderna

Bólusett í Laugardalshöll.
Bólusett í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Boðið er upp á nokkur mismunandi bóluefni í örvunarbólusetningu, frá Moderna, AstraZeneca og Pfizer, en framboðið í Laugardalshöll er mismunandi eftir dögum. „Karlmenn 39 ára og yngri eiga helst ekki að fá Moderna skv. Embætti landlæknis og er því mælt með Pfizer fyrir þá,“ segir á vef Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Á Covid.is kemur fram að óbirt gögn frá Norðurlöndunum gefi til kynna að líkur á hjartabólgum eftir bólusetningu gegn COVID-19 séu mun hærri ef bóluefni Moderna er notað fyrir 18–39 ára einstaklinga heldur en eftir bólusetningu með bóluefni frá Pfizer.

Þá mega börn á aldrinum 12 til 18 ára bara fá bóluefni Pfizer.

Bólusetningar gegn Covid-19 halda áfram í desembermánuði en til og með 10. desember verður opið hús í Laugardalshöll í örvunarbólusetningu. Fólk sem fékk seinni skammt grunnbólusetningar fyrir fimm mánuðum eða meira getur þá látið sjá sig og fengið örvunarskammt. Þá eru þau sem hafa ekki fengið grunnbólusetningu líka hvött til að mæta.

„Ekki er nauðsynlegt að hafa strikamerki, það er nóg að gefa upp kennitölu,“ segir á vef Heilsugæslunnar.

70 ára og eldri mega mæta fyrr

Hvað varðar fólk sem fékk Janssen-bólusetningu og svo örvunarskammt getur mætt í sína þriðju bólusetningu fimm mánuðum eftir örvunarskammtinn.

Aðrar reglur gilda um fólk sem hefur náð 70 ára aldri. Það getur mætt í örvunarsakammt ef þrír mánuðir eru liðnir frá grunnbólusetningu.

Hvað varðar fólk sem ekki er með íslenska kennitölu þá þarf það að skrá sig á síðunni bolusetning.covid.is og bíða eftir staðfestingu áður en það mætir. 

Þá geta þau sem þurfa bólusetningu úti í bíl fengið slíka þjónustu á fimmtudögum og föstudögum. „Einfaldast er að hafa fylgdarmann sem getur farið inn til að láta vita. Þau sem koma ein geta hringt í síma 513-5000 til að fá aðstoð.“

Dagskrá til  áramóta

Svona er áætlunin fyrir næstu vikur með fyrirvara um breytingar.

Laugardalshöll, til og með 10. desember

Opið 10:00 til 15.00 virka daga

  • Föstudagur 3. desember - Opið hús fyrir hálfbólusetta og óbólusetta - Pfizer, Moderna og Janssen.
  • Mánudagur 6. desember - Boðað í örvunarbólusetningar með Moderna. Allir karlar 40 ára og eldri og konur 18 og eldri eru velkomin.
  • Þriðjudagur 7. desember - Boðað í örvunarbólusetningar með Pfizer - Grunnbólusetning líka í boði fyrir 12 ára og eldri.
  • Miðvikudagur 8. desember - Boðað í örvunarbólusetningu með Pfizer og Moderna. Janssen einnig í boði fyrir óbólusetta.
  • Fimmtudagur 9. desember - Opið hús fyrir hálfbólusetta og óbólusetta- Pfizer, Moderna, Jansen og AstraZeneca
  • Föstudagur 10. desember - Opið hús fyrir hálfbólusetta og óbólusetta - Pfizer, Moderna og Janssen.

Suðurlandsbraut 34, frá og með 13. desember

Til jóla - 13. desember til 22. desember

Bólusetningar alla virka daga frá kl. 10:00 til 15:00 (með fyrirvara um breytingar)
Pfizer, Moderna og Janssen alla daga, AstraZeneca á fimmtudögum.
Ekki er bólusett á Þorláksmessu og aðfangadag.

Milli jóla og nýárs - 27. desember til 30. desember

Bólusett alla daga en styttri opnunartími sem verður kynntur síðar.
Ekki er bólusett á gamlársdag.

Janúar 2022

Við höldum áfram að bólusetja í janúar og dagskrá verður kynnt þegar nær dregur.
Þá verður haldið áfram að boða þau í örvunarbólusetningu sem eru komin á tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert