Gróf mál sem fylltu mælinn

Frá mótmælum No Borders í sumar.
Frá mótmælum No Borders í sumar. mbl.is/Jón Helgi

„Ég held að fólki sé bara misboðið. Það heyrir af málum þessara kvenna í fjölmiðlum. Það kemur fram hjá lögmönnum þeirra hver staða þeirra er og ég held að fólk vilji bara safnast saman og sýna breiða samstöðu með þessum konum og fleirum í þeirra stöðu,“ segir Eyrún Ólöf Sigurðardóttir, einn af skipuleggjendum samstöðufundar með konum á flótta sem haldinn verður á Austurvelli klukkan tvö í dag.

Konurnar sem um ræðir eru konur á flótta sem íslensk yfirvöld hyggjast senda úr landi. Umfjöllun um mál þeirra hefur verið birt á Kjarnanum að undanförnu.

Konunum hefur verið synjað um efn­is­lega með­ferð umsóknar sinnar um alþjóð­lega vernd af þeim sökum að þær hafa fengið vernd í Grikklandi. Þar eru flóttamannamál í miklum ólestri. 

Krafa fundarins að konurnar fái að dvelja hér á landi

Fundurinn sem hefst bráðlega er skipulagður af nokkrum ólíkum samtökum: NoBorders, Anti-rasistunum, Femínistafélagi Háskóla Íslands, Kvenréttindafélaginu, Q-félaginu, Refugees in Iceland, Rétti barna á flótta, Slagtogi, Solaris, Stelpur Rokka, Stígamótum, Tabú og Öfgum.

„Krafa fundarins er að konurnar og börnin þeirra, í þeim tilvikum sem þær eiga börn, fái dvalarleyfi hérna og fái þá læknisþjónustu sem þær hafa þörf á og eiga rétt á og að íslensk yfirvöld skoði málin þeirra. Í þeirra tilvikum er kyn áhrifaþáttur, þær eru sérlega viðkvæmar vegna kyns og það hefur ekki verið tekið tillit til þess í meðferð mála þeirra,“ segir Eyrún.

„Oft var þörf en nú er nauðsyn“

Konurnar sem samstöðufundurinn beinir helst sjónum sínum að eru fjórar til fimm talsins en Eyrún segir að vel geti verið að fleiri konur í sömu stöðu séu úti í samfélaginu.

Hún segir að málin sem um ræðir hafi fyllt mælin og að þau séu gróf.

„Eins og bent hefur verið á rengja yfirvöld ekki frásagnir þessara kvenna og gera ekkert lítið úr hættunni sem steðjar að þeim í Grikklandi en telja sér samt stætt af því að senda þær úr landi og líta ekki til þess að það eru alveg skýrar lagaheimildir og að þeim ber skylda til þess að gera heildstætt mat á aðstæðum þeirra,“ segir Eyrún og bætir við:

„Oft var þörf en nú er nauðsyn að grípa inn í og tryggja þeim þá vernd sem þær eiga rétt á.“

Ríflega 350 manns hafa meldað sig á samstöðufundinn. Eyrún vonast til þess að fólk mæti og sýni konum á flótta að því sé ekki sama um þær.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is