Hallinn 548 milljónum króna minni

Frá fundi í borgarstjórn Reykjavíkur.
Frá fundi í borgarstjórn Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Útlit er fyrir að halli á rekstri Reykjavíkurborgar, A-hluta, verði 548 milljónum kr. minni á næsta ári en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun næsta árs, sem lögð var fram í haust, vegna áhrifa nýrrar þjóðhagsspár Hagstofunnar. Fram kemur á minnisblaði fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar, sem lagt var fram í borgarráði í fyrradag, að halli á A-hlutanum verði rúmir 2,8 milljarðar í stað 3,4 milljarða kr. Breyttar verðlagsforsendur leiða m.a. að mati fjármála- og áhættustýringarsviðs til þess að gjaldfærsla lífeyrisskuldbindingar lækkar um 700 milljónir kr., fjármagnsgjöld hækka um 389 milljónir kr. og útsvarstekjur hækka um 88 milljónir á næsta ári og er talið að útgjöld borgarinnar verði hærri sem nemur 95 milljónum kr. vegna hærri verðbóta á samningsskuldbindingar.

Íslenskuverum fjölgað

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram ýmsar tillögur í drögum til breytinga á fjárhagsáætlun næsta árs á fundi borgarráðs en þar er meðal annars lagt til að fjárheimildir íþrótta- og tómstundasviðs verði hækkaðar um 8.5 milljónir kr. vegna nýrra laga sem skylda sveitarfélög til að bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á frístundaþjónustu. Fjárheimildir skóla- og frístundasviðs hækka um 29,4 milljónir vegna kennslu barna með annað móðurmál en íslensku verði tillagan samþykkt en koma á upp tveimur íslenskuverum til viðbótar við tvö íslenskuver sem starfrækt eru í borginni.

Einnig er lagt til að menningar- og ferðamálasviði verði heimilt að ráðstafa allt að 116 milljóna kr. viðbótarframlagi til Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss á næsta ári. Nýta á framlagið til að mæta erfiðri fjárhagsstöðu sökum lokunar og annarra aðgerða í rekstri vegna kórónuveirufaraldursins.

Er gerður fyrirvari um að sambærilegt framlag komi frá ríkinu sem fer með 54% eignarhlut í Hörpu á móti 46% eignarhlut Reykjavíkurborgar. Í fjárhagsáætlun Hörpu er gert ráð fyrir að EBITDA verði neikvæð um 252 milljónir á næsta ári.

Í tillögu borgarstjóra um breytingu á fjárhagsáætlun yfirstandandi árs sem einnig var lögð fyrir fund borgarráðs er lagt til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs hækki um 171 milljón kr. vegna fjölgunar barna í einkareknum grunnskólum. Við gerð fjárhagsáætlunarinnar var á sínum tíma gert ráð fyrir að 674 börn myndu stunda nám við sjálfstætt starfandi grunnskóla í borginni en raunin er sú að þeim hefur fjölgað mun meira og eru orðin 737 um þessar mundir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »