Hin mörgu andlit Laugavegar

Guðni og Anna Dröfn ganga oft um Laugaveginn og segja …
Guðni og Anna Dröfn ganga oft um Laugaveginn og segja hann vera fjölbreyttustu götu landsins. Þau hafa nú gefið út bókina Laugavegur. mbl.is/Ásdís

Þegar horft er yfir bæinn af fjórðu hæð byggingar á Skólavörðustíg blasir miðbærinn við í öllum sínum fjölbreytileika. Úti er kalt en stillt og vetrarsólin slær bláum bjarma á hrímhvíta Esjuna sem lýsist upp tignarlega og rammar inn myndina sem sést út um gluggann. Gömlu og nýju miðbæjarhúsin eru öðruvísi frá þessu sjónarhorni og það glittir í nokkur húsanna við Laugaveg. Blaðamaður er einmitt mættur til fundar við hjónin Önnu Dröfn Ágústsdóttur og Guðna Valberg í bókaútgáfunni Angústúra til að ræða um þá götu, en nýútkomin bók þeirra fjallar um þessa frægustu götu Íslandssögunnar og ber einfaldlega nafnið Laugavegur.

Mikið Laugavegsfólk

Hugmyndina að bókarskrifunum má rekja tvo áratugi aftur í tímann.

„Við erum bæði mikið Laugavegsfólk og förum mikið um helgar með dætur okkar að labba þar og skoða húsin. En löngu áður en við Guðni kynntumst átti hann sér draum um að skrifa bók um Laugaveginn,“ segir Anna Dröfn, lektor í hönnunardeild Listaháskólans.
Hún segir þau alltaf hafa mikið spáð og spekúlerað í húsunum við Laugaveginn og tekur Guðni undir það.

„Ég opnaði verslunina Dogma á Laugaveginum með bræðrum mínum fyrir nítján árum og þar vaknar mín forvitni fyrir götunni. Bókin hefur blundað í mér síðan þá, en eftir að við Anna Dröfn kynntumst fyrir tíu árum poppaði upp önnur hugmynd að bók og skrifuðum við þá saman bókina Reykjavík sem ekki varð en hún kom út fyrir sjö árum. En þessi hugmynd kom svo aftur upp og nú voru aðstæður góðar,“ segir Guðni, arkitekt og einn eigenda arkitektastofunnar Trípólí.

Fjölmennasta gata landsins

Saga Laugavegar hófst árið 1885 þegar hann var lagður að frumkvæði fátæktarnefndar til að bregðast við atvinnuástandi í bænum, að sögn Önnu Drafnar.

„Hann var lagður til að þess að auðvelda konum burðinn inn í Laugar, en þær fóru fótgangandi með þvott á bakinu þangað til að þvo í heitum laugum. Þaðan kemur nafnið Laugavegur,“ útskýrir hún.

„Um leið og vegurinn er lagður fer fólk að byggja sér hús meðfram götunni og á tuttugu árum er gatan þéttbyggð af timburhúsum inn að Barónsstíg. Þannig að upp úr aldamótum er gatan orðin langfjölmennasta íbúðagata á landinu,“ segir Anna Dröfn.

„Þegar flestir bjuggu á Laugavegi náði íbúafjöldinn þar þrjú þúsund manns um 1930,“ segir Guðni.

Byggingarsagan ekki nóg

Hjónin segjast vinna afar vel saman, enda hafi þau slípast vel til við gerð fyrri bókarinnar.

„Við vildum sameina krafta okkar sem arkitekt og sagnfræðingur, en við komum auðvitað inn í verkið með ólíka þætti,“ segir hún og segir að þau hafi lagst í mikla heimildavinnu og grúsk.
„Við fórum af stað til að skilja af hverju Laugavegurinn lítur út eins og hann gerir, þannig að það eru spurningar sem snúa að byggingarlistinni sem drífa okkur af stað. En svo eru svo margar sögur um kaupmenn, frumkvöðla og skipulagsmál sem útskýra útlit húsanna og þróun þeirra,“ segir hún og nefnir að í bókinni er farið yfir 120 húsnúmer við Laugaveginn.
„Það var ekki nóg að fara bara í byggingarsöguna vegna þess að það eru oftar en ekki kaupmenn sem byggja húsin með sérstakan tilgang í huga og í samhengi við gildandi skipulag og framtíðarsýn hverju sinni,“ segir Guðni.

„Það voru þessir skrítnu hlutir við Laugaveginn sem ýttu okkur af stað í verkefnið og svo hefur það leitt okkur í ótrúlega skemmtilegt tímaflakk í gegnum yfir hundrað ára tímabil,“ segir hún.

Í takti við tíðarandann

Í bókinni skoða Anna Dröfn og Guðni þróun götunnar frá upphafi.

„Þetta er langfjölbreyttasta gatan landsins og ekki bara er hún fjölbreytt, heldur alltaf í takt við tíðarandann,“ segir Guðni.

Í bókinni má sjá útskýringateikingar Guðna, og getur fólk skoðað hvernig húsin breyttust í tímans rás, en auk þess eru gamlar ljósmyndir áberandi á nánast hverri síðu.

„Það er svo merkilegt hvað tíðarandinn birtist okkur sterkt í húsunum,“ segir Anna Dröfn og segir húsin geyma ótal sögur.

„Eitt af mínum uppáhaldshúsum er Laugavegur 3, byggt um 1920. Þarna byggði maður sem horfði greinilega til Evrópu og vildi nútímavæða Reykjavík, en hann var menntaður klæðskeri og hét Andrés Andrésson,“ segir hún og segir hann hafa skrifað greinar um hvernig íslenskir karlmenn ættu að klæða sig.

Hér má sjá Laugaveg 3 í byggingu upp úr 1920. …
Hér má sjá Laugaveg 3 í byggingu upp úr 1920. Andrés Andrésson klæðskeri byggði húsið í þremur áföngum eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Gamla timburhúsið var rifið 1927 þegar annar áfangi stórhýsisins var reistur. Gunnar Rúnar Ólafsson/Ljósmyndasafn Rvk.

„Hann fékk Guðjón Samúelsson til að teikna húsið fyrir sig, en keypti í fyrstu gamalt timburhús,“ segir Anna Dröfn og sýnir blaðamanni myndir sem sýna hvernig breytingum húsið tók, en það var byggt í áföngum.

„Við erum að vona að með því að búta niður byggingarsöguna í þessari bók geti fólk farið á Laugaveginn og leitað að þessum vísbendingum,“ segir Anna Dröfn, en þess má geta að Guðni og Anna Dröfn verða með sögugöngu um Laugaveginn um helgina á laugardag. 

Gangan átti einnig að fara fram á sunnudag en hún fellur niður vegna veðurs. 

Feigu húsin fengu að lifa

Er á Laugavegi hrærigrautur stíla?

„Já, ég skoðaði hvaða byggingarstílar hafa verið á Íslandi síðustu 200 ár og það er nánast hver einasti stíll sem á sinn fulltrúa við götuna, eða hefur átt það einhvern tímann,“ segir Guðni.

„Þetta er byggingarlistasögusafn viljum við meina, í þeirri mynd sem gatan er. Það er að einhverju leyti búið að festa núverandi mynd í sessi með því að friða mörg af timburhúsunum þannig að það er búið að taka þá ákvörðun að fjölbreytnin fær að lifa við Laugaveginn,“ segir Guðni.

Gunnar Sigurðsson kaupmaður í Von lyfti húsi sínu á Laugavegi …
Gunnar Sigurðsson kaupmaður í Von lyfti húsi sínu á Laugavegi 55 árið 1924 og steypti undir það verslunarhæð. Jón Jónsson Dahlmann/Ljosmyndasafn Íslands

„Það voru tugir timburhúsa sem voru „feig“, en eftir hrun breyttist gildismat fólks og áhugi á friðun húsa jókst gríðarlega,“ segir Guðni.

Líflegri en oft er viðurkennt

Hvernig finnst ykkur Laugavegurinn í dag eftir að honum var breytt að hluta í göngugötu og akstursstefnu annars staðar breytt?

„No comment,“ segir Guðni og þau skellihlæja.

„Mér þykir Laugavegurinn mikli líflegri en oft er viðurkennt. Eðli götunnar hefur breyst með takmörkun bílaumferðar. En ég hef fulla trú á því að gatan muni aðlagast þessum breytingum,“ segir Anna Dröfn og Guðni segir þessa umræðu vera hálfrar aldar gamla.

„Allt frá fimmta áratugnum hefur verið rætt um að gera Laugaveginn að göngugötu. Svona breytingar taka tíma og geta verið erfiðar, en hægt að rólega aðlagar fólk sig,“ segir Anna Dröfn og bætir við að lokum: „Það er svo eðlilegt og mikilvægt að fólk takist á um þessa aðalgötu. Okkur finnst Laugavegur ansi magnaður og viljum varpa ljósi á sögurnar sem húsin með sín ótal andlit frá mörgum tímabilum hafa að geyma. Þær geta sagt okkur svo margt um þróun borgarinnar, samhengi götunnar, merkilega frumkvöðla og síbreytilega framtíðarsýn.“

Nánar er rætt við Önnu Dröfn og Guðna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Uppfært sunnudag 5.12. kl. 12:13 - Sögugangan sem átti að fara fram klukkan 13:00 í dag fellur niður vegna veðurs.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »