Mesta frost vetrarins mældist á Mývatni

Það er kalt á Mývatni þessa dagana.
Það er kalt á Mývatni þessa dagana.

„Nú er kalt hjá okkur og í nótt mældist mest 21,4 stiga frost við Mývatn. Það er mesta frost sem mælst hefur á landinu þennan veturinn,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands

„Vanalega mælist meira en 20 stiga frost við Mývatn nokkrum sinnum á hverjum vetri, svo ekki er um óvenjulegan atburð að ræða nú í nótt.“

Veðurstofan spáir hægri breytilegri átt á landinu í dag. Þá verður léttskýjað að mestu, en stöku él á sveimi við ströndina. 

Veðurvefur mbl.is

Mæla með útivist í dag

„Það er áfram kalt í dag og frostið getur orðið talsvert í kuldapollum. Dagurinn í dag er tilvalinn til að njóta útivistar í vetrarkyrrð,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings. 

Það er eins gott að fólk njóti útivistar í dag, ef það ætlar yfir höfuð í slíkt þessa helgina því að á morgun er kyrrðin á enda.

„Þá er spáð suðaustan stormi á sunnan- og vestanverðu landinu, þykknar upp þar og hlýnar með slyddu eða rigningu á láglendi eftir hádegi. Hægari vindur á Norður- og Austurlandi framan af degi, en allhvass eða hvass seinnipartinn og dálítil snjókoma eða slydda á köflum.“

mbl.is