Spítalagrjótið mun nýtast vel

Unnið við jarðvinnu vestan við Læknagarð Háskóla Íslands.
Unnið við jarðvinnu vestan við Læknagarð Háskóla Íslands. Ljósmynd/NLHS

Jarðvinna vegna rannsóknahúss Nýs Landspítala er í fullum gangi og hefur gengið vel, að því er fram kemur í Framkvæmdafréttum NSLH. Enn er unnið að uppgreftri á lausu jarðefni og mun sú vinna standa yfir á næstunni. Undirbúningsvinna hjá NLSH ohf. og verktakanum Háfelli ehf. vegna sprenginga er hafin, en áætlað er að þær hefjist innan tíðar. Jarðvinnu á að ljúka seinni hluta árs 2022.

Samkvæmt upplýsingum sem Morgunblaðið fékk hjá NLSH sóttist Reykjavíkurborg eftir að fá allt sprengt klapparefni í landfyllingu og grjótvarnargarða annars vegar við Ánanaust og hins vegar við Bryggjuhverfið við Sævarhöfða.

Laus jarðvegur fer í Bolöldur

Fallist var á ósk Reykjavíkurborgar enda samræmist nálægð losunarstaðanna við upptökustað vel þeim markmiðum sem Nýr Landspítali hefur sett sér um takmörkun á umhverfisáhrifum. Magn klapparlosunar er um 11.000 rúmmetrar.

Nýting á lausum uppgreftri er eðlilega ekki jafn eftirsóknarverð eins og klappargrjóts, segir í svari NLSH. Heimilaður losunarstaður fyrir lausan jarðveg er við Bolöldur ofan Sandskeiðs og þangað var lausum jarðvegi frá rannsóknahúsi ekið. Magn af lausum jarðvegi var um 16.000 rúmmetrar.

Svona á nýtt rannsóknarhús við Landspítalann að líta út. Fjórar …
Svona á nýtt rannsóknarhús við Landspítalann að líta út. Fjórar hæðir og kjallari. Teikning/Aðsend

Eins og menn rekur minni til var jarðefni úr grunni hins nýja meðferðarkjarna Landspítalans flutt í Sundahöfn og notað í gerð landfyllingar við Laugarnes. Úr grunninum fengust allt að 280 þúsund rúmmetrar af jarðefni, nokkru meira en áætlað hafði verið.

Nýtt rannsóknahús, sem mun rísa vestan Læknagarðs HÍ, er ein af byggingum í heildaruppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut og verður um 17.400 fermetrar að stærð, fjórar hæðir ásamt kjallara. Tæknisvæði verður á fimmtu hæð og hugmyndir eru um þyrlupall. Í rannsóknarhúsi hins nýja spítala sameinast öll rannsóknarstarfsemi spítalans á einn stað.

Starfseiningar í rannsóknahúsi verða lífsýnasafn, meinafræði, rannsóknarkjarni, klínísk lífefnafræði og blóðmeinafræði, frumuræktunarkjarni, frumumeðhöndlun, erfða- og sameindalæknisfræði, ónæmisfræði og sýkla- og veirufræði. Starfsemi Blóðbanka mun einnig flytjast í bygginguna. Í tengslum við meinafræðieiningu verður líkhús og krufning og aðstaða fyrir réttarmeinafræði. Rannsóknahúsið tengist meðferðarkjarna og öðrum byggingum spítalans með rörpóstkerfi og göngum neðanjarðar. Með því munu deildir spítalans geta sent sýni til rannsókna í rannsóknarhús á örfáum mínútum.

Hönnunarhópurinn Corpus er aðalhönnuður hússins en að honum standa níu innlend og erlend hönnunarfyrirtæki. Stefnt er að því að nýtt þjóðarsjúkrahús verði tekið í notkun árið 2026.

Fyrsta skóflustungan var tekin í byrjun september sl. Háfell ehf. átti lægsta tilboðið í jarðvinnuna eða 164,4 milljónir króna.

Við uppbyggingu á nýjum Landspítala er þess ávallt gætt að draga eins og mögulegt er úr neikvæðum umhverfislegum áhrifum, segir NSLH. Meðal annars er leitað eftir hæstu mögulegu BREEAM-umhverfisvottun fyrir allar nýbyggingar svæðisins. Til að öðlast slíka vottun er þess m.a. gætt, bæði með kröfum sem settar eru fram í hönnun, sem og kröfum sem gerðar eru til verkframkvæmdarinnar, að hugað sé að nýtingu jarðefna með eins umhverfisvænum hætti og unnt reynist. Jarðvinna fyrir byggingu innifelur bæði uppgröft á lausum jarðvegi, sem og losun og uppgröft klapparefnis. Val á losunarstöðum nýtanlegs efnis byggist annars vegar á eftirspurn eftir efninu og hins vegar á nálægð losunarstaðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »