Stormur á Suðvesturlandi á morgun

Víða taka viðvaranir gildi á morgun.
Víða taka viðvaranir gildi á morgun.

Útlit er fyrir suðaustanstorm suðvestanlands á morgun en Veðurstofa Íslands reiknar með snörpum hviðum allt að 40 til 45 metrum á sekúndu frá um klukkan 9 til klukkan 5 síðdegis á utanverðu Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli og á Snæfellsnesi.

Þá verða slíkar hviður um tíma einnig undir Eyjafjöllum, að því er Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni bendir á í skeyti til mbl.is.

Á Hellisheiði og í Þrengslum verður blindbylur frá um klukkan tvö síðdegis á morgun og fram undir kvöld, en þá slydduhríð. 

Gular viðvaranir taka gildi víða um vestanvert landið á morgun. Fyrsta viðvörunin tekur gildi klukkan sjö í fyrramálið og þá á miðhálendinu. Klukkan átta tekur gildi gul viðvörun í Breiðafirði og klukkan níu í Faxaflóa. Á Suðurlandi tekur gildi viðvörun klukkan tíu og klukkan þrjú á Ströndum, Norðurlandi vestra og Breiðafirði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert