Flugáætlanir raskast verulega vegna veðurs

Keflavíkurflugvöllur. Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Millilandaflug. Flugsamgöngur. Óveður í febrúar.
Keflavíkurflugvöllur. Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Millilandaflug. Flugsamgöngur. Óveður í febrúar. Víkurfréttir/Hilmar Bragi Bárðarson

Brottförum frá Keflavíkurflugvelli var flýtt í morgun vegna óveðurs og þá hafa engar vélar tekið á loft eftir klukkan átta í morgun. Einungis ein vél hefur lent á Keflavíkurflugvelli í dag ef marka má heimasíðu Isavia.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við mbl.is að fundað hafi verið um stöðuna í gær líkt og jafnan er gert þegar óveður er í kortunum. „Fulltrúar frá okkur (Isavia), flugfélögunum og flugþjónustuaðilum funduðu í gær og þar var farið yfir veðurspánna. Flugfélögin gera síðan sínar ráðstafanir á grundvelli fundarins og veðurspár.“

Óveðrið sem gengur nú yfir landið átti að skella á um átta í morgun og gert var ráð fyrir því að það myndi haldast fram eftir degi. „Ég veit til þess að flugfélögin flýttu brottför í morgun og komum var frestað til kvölds.“

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia. Ljósmynd/Aðsend

Ein vél lent síðan í morgun

Alls flugu ellefu vélar frá Keflavíkurflugvelli milli hálf átta og átta í morgun. Eina flugvélin sem hefur lent á flugvellinum í dag er vél British Airways sem lenti í hádeginu. Öðrum komum var frestað til seinniparts dags.

„Við settum inn í gær, líkt og venjan er, upplýsingar á vefinn, Facebook og Twitter um að óveðrið gæti raskað flugáætlunum í dag. En flugfélögin sjálf taka ákvarðanirnar um hvernig haga skuli málum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert