„Það var hálfgert stríðsástand á þessum tíma“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í mínum huga þá var þessi rannsókn hluti af sóttvarnaráðstöfunum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) sem Persónuvernd telur að ÍE hafi brotið persónuverndarlög í. „Þetta var allt saman undir hatti sóttvarnaráðstafana og sóttvarnaviðbragða.“

Rannsókn ÍE gekk út á að kanna hversu stór hundraðshluti lands­manna hefði myndað mót­efni við veirunni.

Mót­efni í blóði þeirra sem höfðu smit­ast og sýkst al­var­lega var skoðað og því voru tek­in sýni úr ein­stak­ling­um sem lágu sýkt­ir inni á Land­spít­ala. Var þetta gert til þess að skilja stöðu far­ald­urs­ins í land­inu svo hægt væri að sníða aðgerðir eft­ir vexti.

Per­sónu­vernd hef­ur kom­ist að þeirri niður­stöðu að sýn­in sem tekin voru í rannsókninni hafi á eng­an hátt tengst sótt­varn­ar­átaki og þar með hafi ÍE brotið gegn per­sónu­vernd­ar­lög­um.

Mikil óvissa var ríkjandi um faraldurinn

„Ég er ekki formlega aðili að þessari rannsókn sem er til umræðu en ég vissi af henni og studdi hana. Ég hvatti alla til þess að rannsaka sjúklinga og annað eins og þeir gætu til þess að við myndum skilja þennan faraldur betur og fá betri upplýsingar til þess að bregðast við,“ segir Þórólfur.

Hann lýsir ástandinu sem skapaðist í upphafi faraldurs sem „stríðsástandi“ þar sem mikil óvissa ríkti um eðli faraldursins. Í því ástandi var, að hans mati, nauðsynlegt að safna vísindalegum gögnum eins og hægt var til þess að mögulegt væri að taka upplýsta ákvörðun það „til hvaða aðgerða ætti að grípa til þess að stemma stigu við útbreiðslu og vernda líf og heilsu landsmanna.“

Þórólfur segir að allan tímann hafi sóttvarnayfirvöld nálgast faraldurinn á vísindalegan máta í samvinnu við lækna, spítalana, heilbrigðiskerfið og Íslenska erfðagreiningu.

Rannsóknin mikilvæg fyrir viðbrögðin

Þórólfur segist ekki ætla að segja til um það hvort ÍE hefði getað farið með öðrum hætti að umræddri rannsókn svo hún væri betur í takt við ríkjandi lög og reglur sem Persónuvernd telur fyrirtækið hafa brotið.

„Persónuvernd túlkar þetta náttúrulega út frá sínum lögum. Það var hálfgert stríðsástand á þessum tíma og menn voru að nýta öll þau gögn sem þeir gátu til þess að geta brugðist við til þess að minnka skaðann af þessum faraldri og skilja hann betur,“ segir Þórólfur.

Með rannsókninni var gerð tilraun til þess að fá eftirfarandi, að sögn Þórólfs: „upplýsingar um veika einstaklinga, hvernig þeir svöruðu sýkingunni, hvaða mótefni voru verndandi, voru þau verndandi eða ekki, voru það viðkvæmir hópar sem sýktust, mótuðu þeir mótefni, þyrftum við að beita einhverjum sérstökum ráðstöfunum fyrir viðkvæma hópa sem byggði á þessum niðurstöðum.“

Hvaða máli skipti þessi rannsókn?

„Hún skipti því máli að við fengum upplýsingar um ónæmisviðbrögð þeirra sem voru að sýkjast og veikjast og við gátum séð hvort það var munur á ónæmisviðbrögðum eftir alvarleika, eftir því hvort fólk væri með undirliggjandi sjúkdóma og á þann máta gátum við skilið betur hvaða viðkvæmu hópa við værum að fást við og þyrftum að vernda þá frekar en aðra.“

Skiptir miklu máli að ÍE haldi raðgreiningu áfram

Íslensk erfðagreining sér um raðgreiningu jákvæðra kórónuveirusýna. Í vikunni gaf fyrirtækið það út að það myndi mögulega hætta slíkri greiningu vegna ákvörðunar Persónuverndar.

Þórólfur segir sjálfur að hann hafi ekki heyrt af því að ÍE ætli sér að hætta raðgreiningu.

Það er væntanlega mikilvægt fyrir heilbrigðisyfirvöld að ÍE sinni því?  

„Það sem þeir hafa fært í okkar viðbrögð er mjög mikilvægt. Þessi raðgreining er okkur mjög mikilvæg, sérstaklega núna þegar við erum að fást við þetta nýja [Ómíkron-]afbrigði,“ segir Þórólfur.

Hluti af sóttvarnaviðbrögðum

Þórólfur ítrekar að hans mat sé það að rannsóknin hafi verið hluti af sóttvarnaviðbrögðum.

„Ég lít svo á að allar þær upplýsingar sem var verið að safna og ég studdi á sínum tíma og hef gert áfram hafi verið hluti af sóttvarnaviðbrögðum og sóttvarnaráðstöfunum sem við þurftum að grípa til hér innanlands,“ segir Þórólfur.

„Það er ekki hægt að mínu mati að aðskilja hvað er klínískt og hvað er vísindalegt. Við þurftum að nota öll þau göng og alla þá nálgun sem við gátum til þess að eiga við þennan faraldur og það eru sóttvarnaráðstafanir þannig að ég er ekki sammála því að það sé hægt að segja að sumt hafi verið klínískt og annað hafi verið vísindalegt. Þetta var allt saman undir hatti sóttvarnaráðstafana og sóttvarnaviðbragða.“

mbl.is