Afþreying fyrir nágranna

Vignir Ari Steingrímsson og Ólafur Guðlaugsson í Ölhúsinu.
Vignir Ari Steingrímsson og Ólafur Guðlaugsson í Ölhúsinu. mbl.is/Unnur Karen

Hverfiskrár njóta víða vinsælda og nokkrar hafa fest sig í sessi á höfuðborgarsvæðinu. Hjónin Aðalheiður Runólfsdóttir og Ólafur Guðlaugsson opnuðu Ölhúsið við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði í apríl 2015 og 20. ágúst í fyrra bættu þau við öðrum sambærilegum stað með sama nafni í Grafarvogi í samvinnu við Vigni Ara Steingrímsson.

„Hugmyndin er að fólk þurfi ekki að fara yfir lækinn til þess að sækja vatnið heldur að það geti gengið á hverfiskrána og heim aftur,“ segir Vignir. Þeir Ólafur hafi þekkst síðan í barnaskóla og lengi hugleitt að gera eitthvað saman. Það hafi síðan orðið að veruleika þegar þeir hafi tekið við staðnum í Grafarvogi.

Vignir segir að erfitt hafi verið að opna í heimsfaraldri og stöðug utanaðkomandi óvissa vegna hans auðveldi ekki reksturinn. „Við byrjuðum vel en höfum síðan verið slegin niður með samkomutakmörkunum. Þær eru skiljanlegar upp að vissu marki, en ég tek undir með Sigmari Vilhjálmssyni að ekki þarf stöðugt að beita fallbyssu við að opna bílskúrshurð.“

Liður í daglegum samskiptum

Ein helsta hugmynd með hverfiskránum í Hafnarfirði og Grafarvogi er að bjóða upp á stað og afþreyingu fyrir nágranna. Auk félagsskaparins, drykkja og matar eru beinar útsendingar frá íþróttum og þá sérstaklega frá enska fótboltanum helsta aðdráttaraflið. Vignir rifjar upp að þegar bjórinn hafi verið leyfður fyrir yfir 30 árum hafi úrtölufólk fundið krám allt til foráttu en reynslan hafi sýnt að neysla á sterkum drykkjum hafi minnkað. Ekki sé um stöðuga helgardrykkju að ræða eins og oft hafi áður tíðkast heldur komi fólk saman á góðra vina fundi, horfi á leik, fari í pílu eða spjalli bara saman í skamma stund en gangi svo heim án vandræða. „Hverfiskráin er liður í daglegum samskiptum fólks,“ leggur Vignir áherslu á.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »