Aukin jarðskjálftavirkni við Grímsvötn

Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls.
Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. mbl.is/RAX

Jarðskjálftavirkni jókst við Grímsvötn um klukkan 6.15 í morgun. Fjórir skjálftar mældust um það leyti og var sá stærsti 3 að stærð. Engin merki eru um gosóróa, að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Fyrsti skjálftinn var 2,3 að stærð, síðan kom sá næsti, 3 að stærð, og eftir það tveir minni skjálftar.

Ekkert gas hefur mælst. Bjarki segir helmingslíkur á því að það gjósi og að áfram sé fylgst með gangi mála.

Íshellan hefur sigið um 77 metra og segist Bjarki ekki viss um að hún geti sigið mikið meira. Síðustu tíu tímana hefur hún sigið mjög hægt, eða um 1 til 2 metra.

Daglegur samráðsfundur verður haldinn klukkan 14 í dag þar sem farið verður yfir stöðu mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert