Hlaupið í rénun og brúin heldur vel

Brúin yfir Gígjukvísl.
Brúin yfir Gígjukvísl. Ljósmynd/Grétar Sigurðsson

Brúin yfir Gígjukvísl heldur vel þrátt fyrir hlaupið sem varð úr Vatnajökli í síðustu viku og stendur enn. Hlaupið hefur náð hámarki sínu og er í rénun en enn hefur ekki gefist nægilegt tækifæri fyrir starfsmenn Vegagerðarinnar til að meta ástand mannvirkja á svæðinu. 

Sveinn Sveinsson, svæðisstjóri á Austurlandi, segir við mbl.is að líklega sé þó ekki mikið tjón á brúnni. Ef eitthvað er, þá getur verið að hafi aðeins brotnað úr sökkli brúarinnar en það sé þó ekki alvarlegt. 

Sveinn segir einnig að starfsmenn Vegagerðarinnar bíði nú færis til að kanna aðstæður betur. 

„Það laskaðist aðeins grjótgarðurinn við sökkla brúarinnar en við vitum ekki hvað það er mikið enn þá, en þegar sjatnar aðeins meira þá sjáum við þetta betur,“ segir Sveinn. 

Þannig það eru engar umtalsverðar skemmdir sem sagt?

„Við teljum svo ekki vera, en það skýrist betur þegar við komumst að þessu.“

mbl.is