Landsmenn til fyrirmyndar í óveðrinu í gær

Erlendir ferðamenn í miðbæ Reykjavíkur létu sig hafa það í …
Erlendir ferðamenn í miðbæ Reykjavíkur létu sig hafa það í gær. mbl.is/Óttar

Óveðrið í gær gekk að mestu niður skömmu eftir kvöldmatarleytið og var því ansi rólegt að gera hjá björgunarsveitum landsins í nótt. 

Nóg var þó að gera hjá björgunarsveitum framan af degi í gær, eins og mbl.is greindi frá. Um fimmtíu útköll höfðu borist í kringum sexleytið í gærkvöldi.

Það hefði varla verið líft í miðbænum í gær ef …
Það hefði varla verið líft í miðbænum í gær ef þessar skrautbjöllur klingdu í alvöru. mbl.is/Óttar

Landsmenn með allt sitt á hreinu

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að um áttaleytið í gærkvöld hafi borist tilkynningar um bíla sem sátu fastir á Hellisheiðinni. Greiðlega gekk að aðstoða ökumenn þar, að hans sögn. 

Skömmu eftir það bárust þó engar frekari tilkynningar vegna óveðursins og nóttin var því róleg. 

Spurður að því hvort viðbragðsaðilar hafi verið vakandi lengi frameftir við að elta trampólín og þess háttar svarar Davíð því að aðeins ein tilkynning um fljúgandi trampólín hafi borist. Það segir hann til marks um það að landsmenn séu með sitt á hreinu þegar kemur að því að fjarlægja eða binda niður ýmislegt lauslegt sem fokið getur í miklum vindi. 

Viðbragðsaðilar að störfum við að binda niður þakplötur.
Viðbragðsaðilar að störfum við að binda niður þakplötur. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is