Litakóði fyrir Grímsvötn hækkaður í appelsínugult

Flogið yfir Grímsvötnum í síðustu viku.
Flogið yfir Grímsvötnum í síðustu viku. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Veðurstofan hefur breytt litakóða fyrir Grímsvötn úr gulum í appelsínugult, en um er að ræða litakóðunarkerfi sem er ætlað fyrir flug. Með breytingunni telur Veðurstofan nú að eldstöðin sýni aukna virkni og vaxandi líkur séu á gosi.

Fram kemur á síðu Veðurstofunnar að appelsínugula merkingin þýði: „Eldstöðin sýnir aukna virkni og vaxandi líkur á eldgosi, eða eldgos er í gangi, þó með lítilli eða engri öskuframleiðslu.“

Viðvörunarkort sem sýnir núverandi ástand eldstöðvakerfa á landinu.
Viðvörunarkort sem sýnir núverandi ástand eldstöðvakerfa á landinu. Kort/Veðurstofa Íslands

Fyrr í morgun varð skjálfti að stærð 3,6, en upptök hans voru 1,2 km norðnorðaustur af Grímsfjalli og var hann á aðeins 0,1 km dýpi.

Litakóðunarkortið er uppfært klukkan 9 hvern morgun og greindi Vísir fyrst frá breytingunni í dag. Auk Grímsvatna eru eldstöðvarnar Askja og Krýsuvík (Fagradalsfjall) merkt með gulum, en aðrar virkar eldstöðvar á landinu með grænum. Þýðir gult að eldstöðin sýni merki um virkni eða að umbrot hafi minnkað markvert ef verið er að lækka frá hærra stigi.

mbl.is