Ók of nálægt bifreiðinni á undan

Frá vettvangi slyssins í júlí í fyrra.
Frá vettvangi slyssins í júlí í fyrra. Ljósmynd/RNSA

Ökumaður bifreiðar sem lenti í árekstri í júlí í fyrra á Skeiðavegi við Stóru-Laxá með þeim afleiðingum að hann lést hafði ekið of nálægt bifreiðinni á undan og ekki gætt að sér að hægja ferðina við gatnamót þar sem ökumaðurinn á undan ætlaði að beygja. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa um banaslysið, en skýrslan var birt í dag.

Slysið varð síðdegis þegar 92 ára gamall ökumaður Opel-bifreiðar fór yfir á rangan vegarhelming við vegamót Auðsholtsvegar og Skeiða- og Hrunamannavegar. Var það til að forðast aftanákeyrslu á Honda-bifreið sem var að undirbúa vinstri beygju. Á sama tíma kom Toyota-bifreið úr gagnstæðri átt og varð harður árekstur við Opel-bifreiðina. Lést ökumaður Opel-bifreiðarinnar í slysinu.

Skýringarkort sem sýnir vettvangs slyssins.
Skýringarkort sem sýnir vettvangs slyssins. Kort/RNSA

Fram kemur í skýrslunni að ökumaður sem hafi stuttu áður mætt Opel- og Honda-bifreiðunum hafi tekið eftir því hversu nálægt Opel-bifreiðin var fyrri bifreiðinni. Þá hafi vitni jafnframt greint frá því að ökumaður Honda-bifreiðarinnar hafi gefið stefnuljós til vinstri áður en áreksturinn varð.

Ekkert kom fram við rannsókn bifreiðanna sem skýrt gat orsök slyssins. Niðurstaðan er að ökumaður Opel-bifreiðarinnar hafi ekki gætt að því að hægt var á bifreiðinni á undan við vegamótin. Við það hafi ökumaðurinn keyrt yfir á öfugan vegarhelming í veg fyrir bifreið sem kom úr gagnstæðri átt með fyrrgreindum afleiðingum. Orsök þess að ökumaðurinn þurfti að fara á öfugan vegarhelming er samkvæmt skýrslunni að hann ók of nálægt bifreiðinni á undan.

Í framhaldinu bendir rannsóknarnefndin á að rannsóknir sýni að umferðarslys eldri ökumanna séu hlutfallslega oftar á gatna- og vegamótum en hjá yngri ökumönnum. Ástæður þess kunni að vera að skertur viðbragðsflýtir og hraðaskynjun með hærri aldri. Þá virðast eldri ökumenn einnig þurfa að einbeita sér frekar að staðsetningu sinni á veginum en þeir yngri og kann það að draga athygli frá öðrum þáttum akstursins. Auka þessi atriði hættu á mistökum við akstur um vega- og gatnamót að því er fram kemur í skýrslunni.

mbl.is