Segja umræðuna erfiða en vert að taka hana

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar t.v. og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, …
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar t.v. og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, t.h. Samsett mynd

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, segir í samtali við mbl.is að tímabært sé að hefja umræðu af alvöru hér á landi um mismunandi takmarkanir eftir bólusetningarstöðu fólks. Hún segir málið afar flókið og siðferðilega snúið. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, tekur í sama streng.

„Ég er sammála því að við þurfum að taka þessa umræðu. Meðal annars vegna þess að fólk er byrjað að ræða þetta, svona í pukri eiginlega. Þannig ég held að við þurfum að hafa kjark í að taka þessa umræðu upp á yfirborðið,“ segir Helga.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hann telji svo vera að faglegar forsendur fyrir því að ræða það að þríbólusettir sæti mögulega minni takmörkunum en aðrir. Vísar hann þá til þess að gögnin bendi til þess að þeir sem fengið hafa örvunarskammt af bóluefni séu með í og við 90% vörn gegn smiti.

„Við getum því sagt með nokkurri vissu að þeir sem eru þríbólusettir smitist síður og séu mun ólíklegri til þess að smitast og smita út frá sér,“ sagði Þórólfur í dag.

Helga Vala segir ljóst að þrátt fyrir að vísindin séu á þann veg sem Þórólfur lýsti, þá sé um að ræða „risa stórt siðferðilegt mál“ sem við komi réttindum borgaranna. Slíkar ákvarðanir geti ekki verið teknar einungis á borði heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknis.

„Það þurfa fleiri stofnanir samfélagsins að koma að þessu máli, það er alveg ljóst.“

Skoða þurfi málið í heildarsamhengi

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, tekur í svipaðan streng og kollegi hennar úr Samfylkingunni. Hún segir faglegar forsendur sem sóttvarnalæknir nefnir einungis vera „eina hlið af afar stórum tening sem skoða þurfi í heildarsamhengi.“

Hún segir ljóst að úr því að sóttvarnalæknir komi „með þetta útspil“ þá þurfi umræða um þessi mál að hefjast á þinginu. Einnig bendir hún á það að sóttvarnalæknir hafi ávallt haldið því til haga að hann sé ekki ábyrgur fyrir því að tryggja meðalhóf í aðgerðum. Það sé stjórnvalda að gera það.

„Stjórnvöld verða að sýna almenningi að allt hafi verið tekið inn í myndina og þau hafa ekki verið nógu dugleg við það í öllum þessum aðgerðum. Þau hafa ekki sýnt almenningi og stjórnarandstöðunni hvernig þau leggja mat á aðgerðir og hvort önnur atriði standi til boða til þess að ná árangri.“

Þá segir hún ljóst að skuggahliðin við umræðuna sé sú að þetta myndi gjá hjá þjóðinni og tvístri henni. Hún segir þjóðina alla þurfa að koma að þessari umræðu.

mbl.is