Taka þurfi umræðu um mismunandi takmarkanir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við mbl.is að nú liggi faglegar forsendur fyrir því að hefja umræðu um að þeir sem séu þríbólusettir þurfi ekki að sæta sömu takmörkunum og aðrir. Hann segir stöðuna almennt þokast í rétta átt en eins og áður megi lítið út af bregða.

„Með þessum örvunarskömmtum og þeirri vernd sem nú er ljóst að þeir veita þá eru að minnsta kosti komnar faglegar forsendur fyrir því að taka þessa umræðu. Það er við getum sagt með nokkurri vissu að þeir sem hafa fengið þrjá skammta af bóluefni eru mun ólíklegri til að smitast og smita út frá sér,“ segir hann spurður út í mismunandi takmarkanir eftir bólusetningarstöðu.

Hann segir ljóst að umræðan þurfi að eiga sér stað víða um samfélagið ef ákveða á að ákveðnir hópar samfélagsins þurfi ekki að sæta jafn hörðum takmörkunum og aðrir. Hann geti bent á faglegar forsendur málsins en ákvörðunin sé þó pólitísk og siðferðileg.

„Það er stjórnvalda að ákveða hverjir eiga að koma að ákvarðanatökunni og að lokum að taka ákvörðunina sjálfa.“

Þokumst í rétta átt

Spurður út í stöðu faraldursins segir hann málin þokast í rétta átt. Bendir þó á að enn séu alvarlega veikir að leggjast inn á spítala og að við séum enn með fólk í öndunarvélum á gjörgæslu. Hann segir þá óþarfa að hafa of miklar áhyggjur af Ómíkron-afbrigðinu að svo stöddu.

„Eins og fram hefur komið þá verðum við bara að bíða og sjá. Við vitum hverju þarf að fylgjast með, og það er þá sér í lagi hvort veikindin séu alvarleg, hvort afbrigðið sé smitnæmara en önnur og hver virkni bóluefnanna er. Við bara fylgjumst með þessu áfram.“

Minnisblað Þórólfs vegna reglugerðarinnar sem rennur út nú á miðvikudag er komið á borð heilbrigðisráðherra og mun ríkisstjórnin fjalla um það á morgun. Inntur eftir svörum um efnislegt innihald minnisblaðsins vildi hann, líkt og áður, ekki tjá sig um það að svo stöddu. Bara að tillögurnar snúi að aðgerðum innanlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina