„Það er ekkert búið að loka“

Hjálmar segir reksturinn ganga betur en nokkurn tíma.
Hjálmar segir reksturinn ganga betur en nokkurn tíma. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það er bara vitleysa. Það er bara bull,“ segir Hjálmar Bogi Hafliðason, sveitarstjórnarfulltrúi Framsóknarflokksins í Norðurþingi, um orð Ólínu Þorvarðardóttur, fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar, í Silfrinu í gær um að fjármunum ríkisins hefði ekki verið vel varið í kísilver PCC á Bakka við Húsavík, þar sem nú væri verið að loka því. Það er ekki alls kostar rétt og hafa orð hennar hafa farið öfugt ofan í íbúa í Þingeyjarsýslu.

„Það gengur bara mjög vel hjá PCC og vonandi fara þeir bara í áfanga tvö og vonandi koma fleiri fyrirtæki á þetta iðnaðarsvæði sem við erum að undirbúa í sveitarstjórn,“ segir Hjálmar í samtali við mbl.is.

Verið var að ræða um virkjana-, raforkumál og stóriðju en Ólína spurði til hvers væri verið að veita stórfyrirtækjum skattaafslætti og afslátt af raforku.

Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, sem einnig var gestur Egils Helgasonar í Silfrinu, spurði í hvaða skattaafslætti hún væri að vísa.

„Ég er til dæmis að vísa í þessa tvo milljarða sem fóru í iðjuverið á Húsavík, sem er nú verið að loka. Tvo milljarða af almannafé. Það var aldeilis vel varið þeim fjármunum,“ svaraði Ólína, án þess að gerðar væru athugasemdir við ummæli hennar.

Skilaði rekstrarhagnaði í september

Raunin er sú að kísilverinu var lokað tímabundið í júní árið 2020 og var þá vísað til þess að kórónuveirufaraldurinn hefði raskað heimsmarkaði með kísilmálm. Verð hafi lækkað og dregið hafi úr eftirspurn. Annar ofn versins var hins vegar gangsettur aftur í apríl á þessu ári og hinn í júlí. Í september síðastliðnum skilaði kísilverið svo í fyrsta sinn rekstrarhagnaði, samkvæmt uppgjöri móðurfélags PCC á Bakka. Þar kom jafnframt fram að jákvæð teikn væru á lofti og að útlit væri fyrir að sú þróun myndi halda áfram.

„PCC gengur mjög vel og aldrei eins vel og núna. Það munar mjög mikið fyrir sveitarfélagið þessi uppbygging sem hefur átt sér stað og var búið að undirbúa í áratugi. Það er svo dapurlegt að leyfa sér að segja þetta. Þótt hún hafi einhverja skoðun á þessu, og ég get alveg borið virðingu fyrir því, en að segja að tveimur milljörðum hafi verð sullað í einhverja uppbyggingu og svo sé bara búið að loka. Það er ekkert búið að loka,“ ítrekar Hjálmar.

„Jú, að sjálfsögðu var Covid-lokun eins og í flestöllum iðnaði,“ bætir hann við.

„Það sagði enginn neitt“

Honum sárnar líka að enginn annarra gesta í Silfrinu hafi leiðrétt Ólínu, en auk Stefáns Einars voru Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Runólfur Ágústsson einnig í settinu hjá Agli.

„Það sagði enginn neitt. Hún er fyrrverandi þingmaður og ætti nú kannski eitthvað að vita. Hún vill væntanlega að fólk taki mark á sér þegar hún talar um raforkumál á Vestfjörðum, en að koma með eitthvað svona. Þetta fór ekki vel í mann.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert