Bókaperlur á uppboði

Margar áhugaverðar bækur verða boðnar upp.
Margar áhugaverðar bækur verða boðnar upp.

Bókaverslunin Bókin heldur uppboð á völdum bókum á slóðinni uppbod.is undir yfirskriftinni Bókaperlur. Alls verða uppboðsnúmerin 120, en uppboðið hefst í dag og stendur til 19. desember.

Þjóðsögur og þjóðsagnatengd rit og ritflokkar verða boðin upp, þar á meðal tveggja binda útgáfan af þjóðsögum Jóns Árnasonar í skinnbandi og heildarsafn Ólafs Davíðssonar auk fleiri tengdra bóka. Einnig verður á uppboðinu allt sem út kom af Vestfirskum sögnum.

Nokkuð stór hluti uppboðsins er gamalt íslenskt prent, bækur prentaðar í Hrappsey, Hólum í Hjaltadal og Viðey. Ein Hólabókanna er Biblíukjarni, prentaður á svokölluðum „eldri Hólum“, og einnig Kross-skóla-sálmar. Boðnar verða upp Viðeyjarbiblía frá 1841 og Steinsbiblía, prentuð á Hólum í Hjaltadal 1728. Ljóðmæli Magnúsar Stephensens í 1. útgáfu, Viðeyjarprent, eintal í samtímabandi, verða einnig boðin upp.

Einnig má nefna upprunalegu útgáfuna af Landaskipunarfræði Gunnlaugs Oddssonar með landakortunum, Um garðyrkjunnar nytsemi eftir Bjarna Arngrímsson, úrval verka Stephans G. Stephanssonar, þar á meðal fágæt verk eins og Á ferð og flugi sem Jón Ólafsson gaf út 1900, Árdegisblað listamanna, sem Kjarval gaf út, og nokkur rit Símonar Dalaskálds Bjarnasonar, allt frumútgáfur; meðal annar Stúfur, Kormákur, Bragi og Sneglu-Halli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert