Braut rúður í þremur verslunum

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðili grunaður um að hafa brotið rúður í að minnsta kosti þremur verslunum í miðbæ Reykjavíkur var handtekinn klukkan hálfeitt í nótt eftir að lögreglumenn báru kennsl á hann í eftirlitsferð.

Sá var einnig með fíkniefni í fórum sínum. Aðilinn var vistaður í fangaklefa, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Á sjötta tímanum í gærkvöldi var tilkynnt að ekið hefði verið á gangandi vegfaranda í hverfi 210 í Garðabæ. Hann hlaut minniháttar meiðsli.

Viðskotaillur í verslun 

Um kvöldmatarleytið var tilkynnt um mjög ölvaðan mann í verslun í miðbæ Reykjavíkur. Hann var mjög viðskotaillur og neitaði meðal annars að gefa upp nafn. Hann var vistaður í fangaklefa sökum ástands.

Aðili í annarlegu ástandi var handtekinn í hverfi 101 á sjötta tímanum í gær. Hann hafði haft í hótunum við aðra og var í þannig ástandi að hann fékk að sofa úr sér í fangaklefa.

Tilkynnt var um innbrot í heimahús í miðbæ Reykjavíkur á sjöunda tímanum í gær. Búið var að stela tölvubúnaði.

Stálu verkfærum úr bifreið

Eigandi bifreiðar kom að tveimur mönnum að stela verkfærum úr bifreið sinni um níuleytið í gærkvöldi. Þeim tókst að komast undan með þýfið.

Tilkynnt var um eignaspjöll í fjölbýlishúsi í Grafarvogi um hálfáttaleytið. Fyrrverandi leigjandi er grunaður um eignaspjöllin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert