Covid-deild opnuð á Eir

Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi í Reykjavík.
Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Opnuð verður sérstök Covid-deild á hjúkrunarheimilinu Eir í dag og er hún hugsuð fyrir eldri sjúklinga sem eru á batavegi en þurfa umönnun.

Sinnt verður öldruðu fólki með lítil eða engin einkenni, að því er RÚV greinir frá.

Tíu rúm verða á deildinni. Um er að ræða samning á milli Eirar og Sjúkratrygginga Íslands og er ætlunin með þessu að létta álaginu af Landspítalanum. Til stendur að flytja fólk frá spítalanum á þessa nýju deild. 

Uppfært kl. 9.29:

Hjúkrunardeildin er í húsnæði þar sem Eir hefur rekið dagdvöl fyrir 24 aldraða. Til að gera þetta mögulegt var dagdvölinni fundið annað húsnæði við Höfðabakka 9, að því er segir í tilkynningu.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynnti sér aðstæður í nýju húsnæði dagdvalarinnar fyrir helgi og ræddi við starfsfólk og stjórnendur.

„Þetta er enn ein aðgerðin sem heilbrigðisyfirvöld ráðast í til að létta álagi af Landspítala og tryggja að þar þurfi ekki að liggja inni sjúklingar sem hægt er að sinna annars staðar með fullnægjandi þjónustu,“ segir Willum í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert