Fer gegn stefnu okkar í orku- og loftslagsmálum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hyggst skila minnisblaði til ríkisstjórnar á föstudag er varðar skerðingu á raforku til stórnotenda þegar frekari upplýsingar liggja fyrir hendi. Hann telur ótímabært að skoða hvort að hækka þurfi raforkuverð til heimilanna í þeim tilgangi að draga úr orkunotkun.

Eftirspurn eftir raforku meðal viðskiptavina Landsvirkjunar hefur aukist mjög og eru raforkusamningar almennt fullnýttir. Samhliða því er ástandið í vatnabúskap á hálendinu verra en lengi hefur verið.

Þá var tilkynnt um það í gær að Landsvirkjun hefði ákveðið að skerða afhendingu raforku til stórnotenda með skerðanlega skammtímasamninga strax, en ekki í janúar líkt og áður hafði verið greint frá.

Þvert á orkustefnuna

Spurður um umfang vandamálsins og hvort mögulega kæmi til þess að skerða þyrfti orku til hins almenna neytanda, kveðst Guðlaugur ekki hafa fengið neinar upplýsingar þess efnis.

„Stóra málið er að þetta er þvert á aðgerðir okkar í loftslagsmálum og þvert á orkustefnu okkar. Ég er að láta skoða þetta sérstaklega,“ segir Guðlaugur í samtali við mbl.is.

Gæti komið til þess að hækka þurfi verð á almenna neytendur til að spara orku?

„Við skulum bíða með að velta slíkum hlutum fyrir okkur.“

Mikilvægt að horfa á stóru myndina

Í tilkynningu Landsvirkjunar kom einnig fram að geta rafflutningskerfisins sé fullnýtt og þar af leiðandi ráði það ekki við alla þá orku sem mögulegt væri að flytja milli landshluta.

Spurður hvort væri frekar í forgangi núna, að auka virkjunargetu eða efla flutningskerfið, svarar Guðlaugur Þór að mikilvægt sé að líta á stóru myndina.

Vandamálið aðkallandi

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, segir vandamálið aðkallandi og mun hann og Guðlaugur Þór leggjast á eina sveif með að finna lausn á þessu máli.

Hann segir raforku vera forgangsmál og sé það skrifað með skýrum hætti inn í stjórnarsáttmálann. Er því mikilvægt að rammaáætlun klárist svo hægt sé að fara af stað í framkvæmdir að afla orku til þess að geta staðið fyrir orkuskiptum og grænum fjárfestingum.

mbl.is