Kostnaður vegna pálmatrés níu milljónir kr.

Svona sá listamaðurinn fyrir sér að pálmatrén myndu líta út …
Svona sá listamaðurinn fyrir sér að pálmatrén myndu líta út í turnlaga gróðurhúsum. Nú er ljóst að það verður bara eitt tré sem mun rísa. Tölvumynd/Reykjavik.is

Heildarkostnaður vegna undirbúnings og uppsetningar pálmatrés í Vogabyggð nemur 8,9 milljónum kr. Þetta kemur fram í svari menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins.

Morgunblaðið greindi frá því í október að fyr­ir­huguðum pálmatrám í Voga­byggð hefði verið fækkað úr tveim­ur í eitt. Var þetta gert í sam­ráði við höf­und lista­verks­ins. Hins veg­ar stóðst verkið raun­hæf­is­mat sem fram­kvæmt var í kjöl­far samþykkt­ar borg­ar­ráðs.

Pálma­tré, til­laga þýska lista­manns­ins Kar­in Sand­er, bar sig­ur úr být­um í sam­keppn­inni um útil­ista­verk í Voga­byggð. Niðurstaða dóm­nefnd­ar var kynnt á Kjar­vals­stöðum 29. janú­ar 2019. Verkið ger­ir ráð fyr­ir að tveim­ur pálma­trjám sé komið fyr­ir í stór­um turn­laga gróður­hús­um og að frá þeim stafi ljós og hlýja.

Fram kemur í svari menningarsviðsins að gert sé ráð fyrir að framkvæmdin við listaverkið fylgi frágangi opinna svæða í hverfinu og sé hönnun torgsins og uppbygging þess háð annarri uppbyggingu við torgið. Það sé unnið í samráði við listamanninn og lóðareigendur.

Þá segir að miðað við nóvember 2021 sé heildarkostnaður vegna undirbúnings 8.865.858 kr., sem er m.a. kostnaður vegna forvals, kynningarfunda, dómnefndar og þóknunar listamanna. Þá segir að kostnaðaráætlun vegna þessara þátta hafi verið um 9,2 milljónir kr.

Þá hafi fallið til 1,2 milljóna kr. kostnaður vegna raunhæfismats sem var framkvæmt af umhverfis- og skipulagssviði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert