Óbreyttar takmarkanir næstu tvær vikur

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Takmarkanir innanlands vegna kórónuveirunnar verða óbreyttar næstu tvær vikurnar. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra greindi frá þessu eftir ríkisstjórnarfund.

Willum bindur vonir við að hægt verði að slaka á takmörkunum fyrr ef gögn benda til þess að það sé óhætt.

Ákvörðunin er í fullu samræmi við minnisblað sóttvarnalæknis, að sögn ráðherrans.

Willum segir óvissu enn vera uppi vegna nýs afbrigðis kórónuveirunnar, Ómíkron. Þó að allt sé viðráðanlegt eins og staðan er í dag varðandi bylgjuna sem nú er uppi hefur langvarandi álag sömuleiðis verið á heilbrigðisþjónustuna.

Ólík sjónarmið voru uppi um hversu hratt eigi að slaka á takmörkunum hérlendis á ríkisstjórnarfundinum en niðurstaðan var þessi, að sögn Willums, og full samstaða í ríkisstjórninni.

Núverandi takmarkanir áttu að renna út á morgun.

Undanfarið hafa 50 mátt koma saman í einu, hvort sem er innan- eða utandyra en heimilt hefur verið fyrir 500 að koma saman framvísi fólk neikvæðu hraðprófi. Ljóst er að svo verður áfram. 

Faraldurinn hefur verið frekar stöðugur undanfarna daga: um og yfir 100 smit á degi hverjum og u.þ.b. sami fjöldi á sjúkrahúsi hverju sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina