Segir launahækkanirnar ekki koma á óvart

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra eftir ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ekki koma á óvart að launahækkanir á almenna vinnumarkaðnum hafi ekki verið sambærilegar þeim í opinbera geiranum undanfarið ár í ljósi síðustu kjarasamninga. Þá kannast hann ekki við að hafa verið með almenn tilmæli til vinnumarkaðsins um að halda að sér höndum.

Í umfjöllun ViðskiptaMoggans hefur athygli verið vakin á því að þróun heildarlauna hefur hækkað mun hraðar hjá opinberum starfsmönnum í samanburði við starfsmenn á almennum vinnumarkaði.

Þá nema meðaltalsheildarlaun á ársverk hjá ríkinu um 912 þúsund króna þegar horft er til fyrstu sex mánaða ársins en til eru dæmi um að mánaðarlaun ríkisstarfsmanna hafi hækkað um allt að 144 þúsund krónur á mánuði frá 2019.

Stytting vinnuvikunnar djörf framkvæmd

„Það kemur ekki á óvart að almenni markaðurinn á þessu viðmiðunartímabili sé ekki með sambærilegar hækkanir vegna þess að síðustu kjarasamningar voru með áherslur á hækkanir þar sem að opinberir starfsmenn voru mjög áberandi. Auk þess var atvinnuástandið á almenna markaðnum með allt öðrum hætti heldur en hjá hinu opinbera,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir hann alveg ljóst að meta verði einnig styttingu vinnuvikunnar til launa og þeirrar hækkunar sem hefur átt sér stað en hann segir þetta hafa verið gríðarlega djarfa framkvæmd og að skoða þurfi vandlega hvernig staðið var að þessu hjá hinu opinbera.

Samkvæmt upplýsingum fjármála- og  efnahagsráðuneytisins var miðað við að hækkanir væru í takt við lífskjarasamningana, þ.e. krónutöluhækkun upp á 68 þúsund krónur á samningstímanum, í kjarasamningum ríkisins. Hópar á lægstu laununum fá aftur á móti 90 þúsund krónum á samningstímanum og á það við um alla í SGS og Eflingu.

Kannast ekki við ummæli til aðila vinnumarkaðsins

Spurður hvort það skjóti ekki skökku við að ríkið hafi farið fram á það við aðila vinnumarkaðsins að halda að sér höndum í ljósi þessara launaþróunar, kveðst Bjarni ekki hafa verið með nein almenn tilmæli til vinnumarkaðsins. Hann hafi hins vegar tekið undir með Seðlabankanum að mikilvægt væri að horfa til þess svigrúms sem væri í hagkerfinu til launahækkana.

„Í augnablikinu þá erum við með stöðu þar sem að við getum sýnt fram á að kaupmáttur allra tekjutíunda hefur vaxið. Það hlýtur að vera mikið gleðiefni. Það hafa allar tekjutíundir meira á milli handanna í dag og verðbólgan er alls ekki komin úr böndunum. Vextir eru tiltölulega lágir í sögulegu samhengi.

Það er þessa góðu stöðu sem við viljum verja og ekki fara fram úr okkur. Það er bara verið að mæla fyrir því að menn undirbúi næstu kjaralotu vel og gæta að því að á sama tíma og Seðlabankinn er að auka aðhald með hækkun vaxta og ríkisstjórnin er að reyna að styðja Seðlabankann í þeirri viðleitni, að þá fari vinnumarkaðurinn ekki fram úr sér.“

mbl.is