Þurfa andrými til að gera tilraunir

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir segir það geta verið erfitt að tengja listsköpun við peninga og að þurfa að sjá fyrir sér með listinni. Listamenn verði að fá að gera tilraunir án þess að hugsa um að þær seljist vel. 

„Það er til dæmis tilgangurinn með listamannalaunum. Þú verður að hafa andrými til þess að gera einhverja tilraun sem kannski selst ekki vel, sem er kannski bara einhver kengbogin pæling, en sem í ljósi sögunnar þurfti kannski að gerast.“

Henni finnst að list eigi ekki alltaf að þurfa að seljast vel. „Það þarf ekki alltaf að fjöldaframleiða allt. Það þarf ekki að selja öllum að þetta sé góð pæling. Það er ekki gott fyrir listina.“ 

Frelsandi að þurfa ekki að vera góð

Lóa hefur nú gert listina að sínu aðalstarfi og það má með sanni segja að henni sé margt til lista lagt. Hún starfar meðal annars sem myndasöguhöfundur, teiknari og rithöfundur, auk þess sem hún er meðlimur hljómsveitarinnar FM Belfast.

Eftir að hafa gert áhugamálin, myndlist og skrif, að aðalstarfi segist hún hafa þurft að finna sér nýtt áhugamál og trommuleikur varð fyrir valinu.

„Það er mjög frelsandi að þurfa ekki að vera góð í því, að engum þurfi að finnast þetta góð pæling nema mér og trommukennaranum mínum.“

Lóa var gestur Ragnheiðar Birgisdóttur í Dagmálum og ræddi meðal annars um listina og lífið og hvernig þetta tvennt fer saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert