Willum kynnir sitt fyrsta leikplan

Willum Þór Þórsson, nýr heilbrigðisráðherra, .
Willum Þór Þórsson, nýr heilbrigðisráðherra, . mbl.is/Árni Sæberg

Viðbúið er að Willum Þór Þórsson, nýr heilbrigðisráðherra úr röðum Framsóknar, muni í fyrsta sinn kynna nýjar sóttvarnaaðgerðir innanlands í dag. 

Ríkisstjórnarfundur verður haldinn í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag og venjan er að honum ljúki skömmu fyrir hádegi. 

Vísir hefur eftir Willum að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggi ekki til hertar aðgerðir í minnisblaði sem hann sendi til nýs ráðherra um helgina. 

Faraldurinn hefur verið ansi stöðugur undanfarna daga: um og yfir 100 smit á degi hverjum og u.þ.b. sami fjöldi á sjúkrahúsi hverju sinni. 

50 mega koma saman nú

Á morgun renna gildandi takmarkanir sitt skeið og venjan er að nýjar aðgerðir séu kynntar skömmu fyrir slík tímamót, nema mikið liggi við. 

Nú mega 50 koma saman í einu, hvort sem er innan- eða utandyra, en heimilt er fyrir 500 að koma saman framvísi fólk neikvæðu hraðprófi. 

Það var mál manna þegar aðgerðir voru hertar í nóvember að verið væri að kasta líflínu til viðburðahaldara sem standa nú fyrir jólatónleikum, sem tugþúsundir Íslendinga sækja á aðventunni. Ljóst er af því sem Willum segir um minnisblað sóttvarnalæknis að sú líflína heldur enn.

Þegar aðgerðir voru hertar í nóvember reyndist það í síðasta sinn sem Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, kynnti nýjar sóttvarnatakmarkanir innanlands. Þegar verst lét í hennar tíð máttu aðeins 10 koma saman og ýmsum almenningsstöðum og þjónustu var gert að loka. Þegar best lét aflétti Svandís, sem nú er tekin við sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, öllum takmörkunum innanlands.

mbl.is