Átaki í örvunarbólusetningu lýkur í dag

Bólusett verður í Laugardalshöll fram að áramótum.
Bólusett verður í Laugardalshöll fram að áramótum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Átaki í örvunarbólusetningu landsmanna lýkur formlega í dag. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, verkefnastjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir mætingu heilt yfir góða. Starfsmenn og gestir séu orðin vön ferlinu og allir afslappaðir í höllinni en bólusett verður þar fram að áramótum.  

„Átakinu sem við kynntum í nóvember lýkur formlega í dag, en við verðum samt áfram með opið hús í Laugardalshöll fram að áramótum,“ segir Ragnheiður í samtali við mbl.is.

Allir þeir sem voru fullbólusettir 7. júlí og fyrr gátu mætt á opið hús í dag en allir í þeim hópi eiga að hafa fengið strikamerki fyrir örvunarskammti.

Ekki sjálfsagt að mæting sé góð

Mætingin heilt yfir hefur verið góð að sögn Ragnheiðar. „Við höfum verið með svona á bilinu 70-80% nýtingu, miðað við þann fjölda sem var boðaður, allar fjórar vikurnar.“

Hún segir erfitt að bera saman mætingu í bólusetningu eftir mismunandi átökum í bólusetningum. En ítrekar að heilt yfir hafi þátttaka landsmanna í bólusetningum verið afskaplega góð.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, verkefnastjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, verkefnastjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Eggert Jóhannesson

„Við erum að boða hérna þriðju bólusetningu og ég er bara stolt og ánægð með hvað landsmenn eru duglegir að mæta til okkar hér í höllina. Það er ekki sjálfsagt.“

Ljóst sé að bæði starfsmenn og gestir séu orðnir vanir þessu ferli og stemmingin í höllinni því afslöppuð og ferlið vel smurt.

Eins og áður segir verður opið hús í bólusetningu fram að áramótum og er það gert til þess að þeir, sem ekki komust á tilsettum degi í bólusetningu, hafi kost á því að mæta.

Janssen í janúar og ungmennin í kjölfarið

Í byrjun næsta árs segir Ragnheiður að sá hópur sem fékk skammt frá Janssen síðasta vor og var boðað í örvunarskammt nú í haust, verði boðaður í þriðju bólusetninguna. Síðan í kjölfarið verði komið að aldrinum 12-15 ára.

Ástæðan fyrir þessari röð er sú að fimm mánuðir þurfa að líða milli þess að einstaklingar teljist fullbólusettir og fram að því að örvunarskammtur er gefinn. Eftir að áðurnefndir hópar klárast verður búið að boða alla landsmenn í örvunarskammt. Framhaldið eftir það því óljóst.

Ekki liggur fyrir hvort bólusett verði í Laugardalshöll í janúar en Ragnheiður segir að ástæða þess að höllin verði notuð út mánuðinn sé sú að mikill fjöldi sé enn að mæta í sýnatöku á Suðurlandsbraut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert