Byssumaðurinn neitaði sök um tilraun til manndráps

Frá vettvangi skotmálsins í Dalseli á Egilsstöðum.
Frá vettvangi skotmálsins í Dalseli á Egilsstöðum. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Maðurinn sem var skotinn af lögreglu á Egilsstöðum í ágúst og var ákærður fyrir að hafa skotið af byssu sinni nokkr­um sinn­um, bæði inni í húsi fyrr­ver­andi manns sam­býl­is­konu sinn­ar og víðar, játaði brot sín að hluta en neitaði meðal annars sök um tilraun til manndráps. Þetta kom fram við þingfestingu málsins á þriðjudaginn í Héraðsdómi Austurlands.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfestir við mbl.is að verjandi mannsins hafi jafnframt óskað eftir yfirmati á sakhæfi hans og hafi tveir yfirmatsmenn verið dómkvaddir til að framkvæma matið.

Kolbrún segir jafnframt að stefnt sé á að aðalmeðferð málsins fari fram í lok febrúar.

Líkt og mbl.is hefur greint frá er maðurinn ákærður fyrir til­raun til mann­dráps, hús­brot, eign­ar­spjöll og vopna­laga­brot, hót­un, brot gegn barna­vernd­ar­lög­um, brot gegn vald­stjórn og hættu­brot. Fram kemur í ákæru málsins að hann hafi að kvöldi 26. ág­úst ruðst heim­ild­ar­laust inn í íbúðar­húsið á Dal­seli, und­ir áhrif­um áfeng­is og vopnaður hlaðinni hagla­byssu af teg­und­inni Ber­etta A400Lite og hlaðinni 22 kalíbera skamm­byssu, með þeim ásetn­ingi að bana hús­ráðanda. 

Var húsráðandi ekki heima en maðurinn skaut þremur skotum úr haglabyssunni innandyra og tveimur úr skammbyssunni. Þá skaut hann einnig tveimur skotum í hlið bifreiðar og framan á annan bíl, bæði með haglabyssunni og skammbyssunni.

Í ákærunni kemur jafnframt fram að maðurinn hafi hótað tveim­ur drengj­um sem voru í hús­inu sem hann réðst inn í, fjór­tán og tólf ára, með hlaðinni hagla­byssu þar sem þeir sátu í sófa. Drengj­un­um tókst að flýja út um dyr sem lágu út í garð og inn í nær­liggj­andi skóg. 

Þegar lögreglu bar að skaut maðurinn jafnframt skoti að lögreglu með haglabyssunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert