Ekki notalegt að fá skjálftann

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var nú ekki svo mikið að menn væru eitthvað að kippa sér upp við þetta þannig séð miðað við það sem við erum vön,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, í samtali við mbl.is en jarðskjálfti af stærðinni 3,1 varð 4,8 km norðaust­ur af Grinda­vík um klukk­an 10.45 í morg­un.

Þá segir Fannar að skjálftinn hafi ekki verið verulegur. Einhverjir hafi fundið fyrir honum en að þeir sem voru á ferðinni og sátu ekki kyrrir hafi ekki orðið varir við hann. „Þannig að þetta var ekkert stærra en það,“ segir Fannar.

Grindvíkingar eru ýmsir vanir eftir skjálfahrinuna í aðdraganda gossins í …
Grindvíkingar eru ýmsir vanir eftir skjálfahrinuna í aðdraganda gossins í Geldingadölum. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekki tengdur neinum umbrotum

„En auðvitað höfum við nú fengið frið fyrir þessu í nokkrar vikur þannig að því leyti var ekkert endilega notalegt að fá þennan skjálfta,“ segir Fannar og bætir við:

„En síðan er okkur sagt að þetta hafi verið stakur skjálfti og ekkert tengdur neinum umbrotum heldur eitthvað sem má búast við og gerist stundum þannig að við erum í sjálfu sér alveg róleg yfir þessu.“ 

Að sögn Sigþrúðar Ármannsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, varð skjálftinn ekki nálægt gosstöðvunum í Geldingadölum og tengist þeim því ekki neitt. Þá varð hann oftan á þekktri sprungu og því ekkert óvenjulegt við hann.

mbl.is