Engin sprenging orðið í fjölda ferðamanna

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/RAX

„Ég held þetta sé eitthvað skrítið,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, innt viðbragða við framsetningu Ferðamálastofu á nýjustu tölfræðiupplýsingum um fjölda brottfara erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll.

Fjöldinn ennþá undir svartsýnustu spám

Samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia voru brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll um 75 þúsund í nýliðnum nóvembermánuði. Í tilkynningu Ferðamálastofu segir að horfa þurfi allt til ársins 2015 til að sjá álíka fjölda brottfara erlendra farþega í nóvembermánuði.

Bjarnheiður segir þetta óheppilegt orðalag enda gefi það í skyn að hér hafi hreinlega orðið sprenging í brottförum erlendra farþega í nóvember á þessu ári.

„Þegar horft er á heildarmyndina þá erum við enn í takt við svartsýnustu spár fyrir árið. Síðastliðna 11 mánuði hafa um 623 þúsund ferðamenn komið hingað til lands sem er meira að segja aðeins minna en svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir.“

Afbókunum ferðamanna á ferðum til Íslands hefur fjölgað með tilkomu …
Afbókunum ferðamanna á ferðum til Íslands hefur fjölgað með tilkomu Ómíkron-afbrigðisins. Ljósmynd/Einar Falur Ingólfsson

Afbókunum fjölgað með tilkomu Ómíkron

Bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir um 850 þúsund ferðamönnum á þessu ári en með tilkomu nýja Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar er ólíklegt að það verði af því, að sögn Bjarnheiðar.

„Við reiknum með því að desember verði verri en við áætluðum þar sem nýja afbrigðið er því miður farið að trufla töluvert. Fyrirtækjum í ferðaþjónustunni er strax farið að berast afbókanir fyrir jólin og áramótin, sem hafa fram að þessu verið ágætis búbót yfir vetrartímann. Það er eitthvað sem við megum endilega ekki við einmitt núna. Það hefði verið gott að fá góð jól og áramót,“ segir Bjarnheiður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert