Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar samþykkt

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Sigurður Bogi

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022 og fimm ára áætlun 2022-2026 var samþykkt í borgarstjórn í gærkvöldi.

Rekstrarniðurstaða samstæðu á næsta ári er áætluð jákvæð um 9 milljarða króna. Rekstrarniðurstaða A-hluta er áætluð neikvæð um 2,8 milljarða króna. 

Gert er ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar frá og með árinu 2023, að því er kemur fram í tilkynningu frá borginni.

Veltufé frá rekstri styrkist mikið á tímabilinu en í lok tímabilsins er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum nemi um 17,1% hjá samstæðu og 8,1% hjá A-hluta. Fjármálastefna og fjárfestingarstefna gera ráð fyrir að skuldir verði greiddar niður í lok tímabilsins.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Áframhaldandi sóknaráætlun

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir áætlunina vera áframhaldandi sóknaráætlun þar sem krafti borgarinnar er áfram beitt til að halda háu fjárfestingarstigi, áframhaldandi metnaði fyrir mikilvægum verkefnum og góðri þjónustu.

„Reykvíkingum hefur á undanförnum árum fjölgað mikið og það má segja að áratugur Reykjavíkur sé runninn upp. Borgin og fyrirtæki í eigu borgarinnar eru að fjárfesta fyrir um 170 milljarða á næstu þremur árum til þess að gera Reykjavík að betri borg, bæta þjónustu og gera grænni borg að veruleika. Allt er þetta í samræmi við Græna planið sem er efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg sóknaráætlun sem við lögðum fram fyrir ári síðan og gerir ráð fyrir miklum fjárfestingum í allri borginni með fjölgun starfa og meiri hagsæld,“ segir Dagur í tilkynningunni.   

Meirihluti borgarstjórnar samþykkti breytingartillögur á fjárhagsáætlun í gærkvöldi en meðal þeirra tillagna voru aukin framlög vegna strætósamgangna í Gufunesi, frístund fatlaðra framhaldsskólanema og stofnun tveggja nýrra íslenskuvera vegna kennslu barna með annað móðurmál en íslensku. Þá var samþykkt að koma á fót tveimur nýjum barnakórum í Grafarvogi og Laugardal og Háaleiti auk framlaga vegna hópkennslu í hljóðfæraleik. Einnig voru samþykktar tillögur um að hækka framlög til frístundaheimila vegna fjölgunar barna, eflingu Hinsegin félagsmiðstöðvar og tilraunaverkefni um Lýðheilsusjóð.

mbl.is