Freista þess að taka á kvíðavanda barna

Helmingur allra kvíðaraskana þróast fyrir 12 ára aldur.
Helmingur allra kvíðaraskana þróast fyrir 12 ára aldur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvíði er algengasti vandi barna og virðist fara vaxandi. Því er eðlilegt að þetta úrræði sé í boði,“ segir Guðríður Haraldsdóttir, sérfræðingur í klínískri barnasálfræði og verkefnastjóri sálfræðiþjónustu barna- og unglinga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Um þessar mundir er verið að innleiða foreldramiðaða meðferð við kvíða hjá 6-12 ára börnum hjá heilsugæslunni um allt land. Meðferðir fyrir einstaklinga eru þegar í boði á flestum heilsugæslustöðvum og eftir áramót verða hópmeðferðir einnig í boði.

Í umfjöllun á vef heilsugæslunnar kemur fram að meðferðin gangi út á að kenna foreldrum aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) til að nota í daglegu lífi barnsins og hjálpa því þannig að komast yfir kvíðavandann. Hugmyndin byggist á að foreldrar séu best til þess fallnir að styðja barnið þar sem þeir eru oftast með barninu á erfiðum tímum þegar kvíðinn kemur fram.

„Rannsóknir gefa til kynna að allt að 30% einstaklinga muni á einhverjum tímapunkti á lífsleiðinni þróa með sér kvíða sem verður það mikill að hann hindrar eða skerðir verulega daglegt líf einstaklingsins,“ segir á vef heilsugæslunnar. „Helmingur allra kvíðaraskana þróast fyrir 12 ára aldur og hátt í 7% barna greinast með kvíðaröskun einhvern tíma. Það getur skipt sköpum að grípa snemma inn í og veita börnum, sem stríða við kvíða, stuðning til að draga úr hættu á að vandinn þróist á verri veg. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að þessi meðferð er hagkvæm og mælist jafn árangursrík og aðrar HAM-meðferðir sem krefjast mun lengri meðferðartíma,“ segir þar enn fremur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert